Leitin að skipverjanum í Vopnafirði hefur enn ekki borið árangur en haldið verður áfram að leita að honum í kvöld. Maðurinn, sem var meðlimur í 15 manna áhöfn á skipingu Erling KE- 140, er talinn hafa fallið fyrir borð á leiðinni til hafnar í gær.

Óskar Þór Guðmundsson, vettvangsstjóri lögreglunnar, sagði í samtali við Austurfrétt í dag að verið sé að fínkemba svæðin og leitað fjörurnar oftar en einu sinni, bæði af landi og sjó.

Tæplega 200 manns að leita

Tæplega 200 manna lið björgunarsveita og annarra sjálfboðaliða hafa tekið þátt í aðgerðum auk starfsmanna Landhelgisgæslu og lögreglu. Búið er að setja upp matar­að­stöðu í fé­lags­heimilinu fyrir þá sem taka þátt í björgunaraðgerðunum.

Leitað var í lofti, á láði og legi í dag; fjörur eru gengnar, björgunarbátar stórir og smáir, drónakafbátur og kafarar leituðu í sjó og eftirlitsflugvél og þyrla Landhelgisgæslunnar hafa flogið yfir fjörðinn. Leitarsvæðið nær yfir allan Vopnafjörð, frá Bjarnarey í austri að Strandhöfn í norðri og inn í Sandvík.

Leitarsvæði flugvélarinnar.
Mynd/Landhelgisgæslan

Leit flugvélarinnar lokið í bili

Leit flugvélar Landhelgisgæslunnar er lokið í dag. Ásamt áhöfn Landhelgisgæslunnar var lögreglumaður um borð auk björgunarsveitarmanns. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, en hér fyrir ofan má sjá kort af leitarsvæði flugvélarinar.

Von er á tilkynningu frá lögreglunni síðar í kvöld.