Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá hafa hrint af stað nýju átaki til að vekja athygli á nýrri stjórnarskrá, sem ekkert bólar á nú tæpum átta árum eftir að þjóðin samþykkti tillögur stjórnlagaráðs.

Fólk deilir myndum af sér á samfélagsmiðlum þar sem það leitar að stjórnarskránni í ruslafötum, innan um runna og bak við húsgögn á heimilinu. Er þetta gert undir myllumerkinu #Hvar?

Herferðin hefur vakið mikla athygli og hafa fjölmargir þegar tekið þátt eins og má sjá neðst í fréttinni.

Tíu ár frá þjóðfundi

Tæplega tíu ár eru liðin frá þjóðfundi, þegar nær þúsund manns komu saman í Laugardalshöll til að ræða innihald nýrrar stjórnarskrár og helstu þættir hennar. Voru þetta almennir borgarar, frá 18 ára til 91 árs að aldri og var kynjaskipting nánast jöfn. Auk þeirra komu að fundinum um 200 aðstoðarmenn.

Hugmyndir sem komu fram á fundinum voru svo nýttar í gerð frumvarps stjórnlagaráð afhenti þáverandi forseta Alþingis, Ástu Ragnehiði Jóhannesdóttur, í Iðnó þann 29. júlí 2011.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fór fram 20. október 2012 og voru allar tillögur samþykktar. Kosningaþáttaka var rétt undir 50 prósent.

Ungt fólk með mikinn áhuga

Undirskriftasöfnun á vegum Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá þar sem þess er krafist að Alþingi lögfesti nýja stjórnarskrá er komin með tæplega 19 þúsund undirskriftir.

Ungar konur nota TikTok og Instagram til að fræða jafnaldra sína um nýju stjórnarskrána og hafa sum myndböndin fengið tugi þúsunda áhorfa.