Björgunarsveitir af suðvesturhorninu og úr Árnessýslu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan 22 í kvöld til leitar að tveimur göngumönnum sem eru týndir við gosstöðvarnar á Reykjanesi.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kemur fram að mennirnir tveir hafi sjálfir náð að hringja í Neyðarlínuna og óska eftir aðstoð þar sem þeir eru villtir.
„Þeir hópar björgunarsveitarfólks og lögreglu sem voru á svæðinu hófu strax leit um leið og meiri mannskapur var kallaður út,“ segir í tilkynningunni. Þá er tekið fram að samband náist við mennina og er þessa stundina verið að afla frekari upplýsinga og skipuleggja frekari leit.