Björgunar­sveitir af suð­vestur­horninu og úr Ár­nes­sýslu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan 22 í kvöld til leitar að tveimur göngu­mönnum sem eru týndir við gos­stöðvarnar á Reykja­nesi.

Í til­kynningu frá Slysa­varna­fé­laginu Lands­björg kemur fram að mennirnir tveir hafi sjálfir náð að hringja í Neyðar­línuna og óska eftir að­stoð þar sem þeir eru villtir.

„Þeir hópar björgunar­sveitar­fólks og lög­reglu sem voru á svæðinu hófu strax leit um leið og meiri mann­skapur var kallaður út,“ segir í til­kynningunni. Þá er tekið fram að sam­band náist við mennina og er þessa stundina verið að afla frekari upp­lýsinga og skipu­leggja frekari leit.