Strætó óskar eftir þátt­töku al­mennings í mótun nýs leiða­nets. Segir í til­kynningu að miklar breytingar séu fram undan í sam­göngu- og skipu­lags­málum höfuð­borgar­svæðisins, svo sem upp­bygging borgar­línu, skipu­lags­breytingar á Hlemmi, BSÍ-reit og víðar. Nýtt leiða­net er af­rakstur vinnu fag­hóps um leiða­kerfis­mál og mark­mið verk­efnisins er að laga Strætó að breyttu skipu­lagi og inn­leiða nýjar á­herslur þar sem örari tíðni og styttri ferða­tími verður í for­grunni.

Hægt er að skoða fyrstu hug­myndir að nýju leiða­neti hér og koma með sínar eigin hug­myndir og á­bendingar hvað varðar legu leiða og stað­setningu stoppi­stöðva. Nýja leiða­netið verður inn­leitt í skrefum eftir því sem hægt er, en stærstu breytingarnar eru á­ætlaðar eftir um fjögur ár, eða 2023, þegar á­ætlað er að fyrsta á­fanga Borgar­línunnar verði lokið.

Stofnleiðir og almennar leiðir

Í nýja leiða­netinu er því skipt í tvo flokka, það eru stofn­leiðir og svo al­mennar leiðir.

Stofn­leiða­netið er skipu­lagt sem burðar­ásinn í Nýju leiða­neti og til­gangur þess verður að flytja mikinn fjölda far­þega á sem stystum tíma. Á­ætlað er að vagnar á stofn­leiðum aki á 7 til 10 mínútna fresti á anna­tímum og 15 til 20 mínútna fresti utan anna­tíma.

Borgar­lína mun leysa hluta stofn­leiða­nets Strætó af hólmi eftir því sem sér­rými Borgar­línu byggist upp.

Hér má sjá fyrstu hugmyndir að stofn­leiða­neti.
Mynd/Strætó

Almennt kerfi tengir saman hverfi við stofnleiðanet

Við hönnun al­menna leiða­netsins er hugsunin sú að tengja hverfi höfuð­borgar­svæðisins við stofn­leiða­net Strætó og Borgar­línu. Á­ætlað er að al­mennar leiðir aki á 15 mínútna tíðni á anna­tíma og á 20 til 30 mínútna tíðni utan anna­tíma.

Fram kemur í til­kynningu frá Strætó að þau leggi mikla á­herslu á þátt­töku al­mennings í mótun nýja leiða­netsins. Hægt er að kynna sér fyrstu hug­myndir að neðan, auk þess sem hægt verður að skila inn hug­myndum og á­bendingum.

Fyrstu hug­myndir að Nýju leiða­neti Strætó
Mynd/Strætó

Opin hús

Strætó mun halda opin hús á nokkrum stöðum á höfuð­borgar­svæðinu. Á­huga­samir geta komið við, kynnt sér leiða­netið og komið sínum á­bendingum á fram­færi við starfs­fólk Strætó og verk­efna­stofu Borgar­línu. Nánari upplýsingar um dagsetningar er að finna hér að neðan.

Faghópur um leiðakerfismál

Faghópur um leiðakerfismál stóð að gerð fyrstu hugmyndar Nýs leiðanets. Faghópurinn var skipaður af stjórn Strætó í febrúar 2019 og er áætlað að faghópurinn skili hugmyndum að Nýju leiðaneti til stjórnar Strætó í nóvember á þessu ári. Sæti í faghópnum eiga, fulltrúar úr leiðakerfi Strætó, fulltrúar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúi Vegagerðarinnar, fulltrúi Samtaka um bíllausan lífsstíl og fulltrúi Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins

Frekari upplýsingar

Hér má nálgast frekari upplýsingar um fyrstu hugmyndir Nýs leiðanets: