Leitin að skipverjanum í Vopnafirði stendur enn yfir og er gert ráð fyrir að leitin haldi áfram framundir miðnætti. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í kvöld.

Sjómaðurinn er talinn hafa fallið fyrir borð á leið til hafnar í dag. Lögreglan fékk tilkynningu um tvöleytið í dag og hófst þá leit að manninum.

Björgunarsveitin Vopni hefur staðið að aðgerðum og hafa björgunarsveitarmenn gengið fjörur. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug síðan með fimm kafara í Vopnafjörð sem hafa leitað að skipverjanum í sjónum.

Leitin hefst að nýju með morgninum hafi leit þá ekki skilað árangri.

Von er á tilkynningu frá lögreglunni um tíuleytið á morgun með nánari upplýsingum.