Lögreglan í Lyon í Frakklandi leitar nú manns sem grunaður er um að hafa skilið eftir bréfpoka með sprengju í borginni í gær. Alls særðust þrettán í sprengjuárásinni, ellefu eru enn á spítala.

Yfirmaður hryðjuverkarannsókna í Frakklandi, Remy Heitz, sagði fyrr í dag að búið væri að hefja nýja rannsókn sem legði áherslu á morðtilræði í tengslum við hryðjuverk. Hann sagði að í myndskeiði sem yfirvöld hafi undir höndum megi sjá þann grunaða hjóla inn í miðborg Lyon síðdegis í gær. Hann hafi síðan gengið að göngugötunni Hugo street þar sem hann skildi bréfpoka eftir á miðri götunni, nærri bakaríi. Að því loknu gekk hann rakleiðis aftur að hjóli sínu og fór sömu leið til baka. Einni mínútu síðan sprakk sprengjan.

Engin hryðjuverkasamtök hafa enn sagst bera ábyrgð á ódæðinu í Lyon í gær. Á vettvangi hefur ýmislegt fundist sem bendir til þess að kveikt hafi verið á sprengjunni annars staðar.

Lögreglan birti mynd af hinum grunaða fyrr í dag og sögðu hann hættulegan. Heitz sagði að lögreglan myndi fljótlega birta fleiri myndir. Maðurinn var með derhúfu og sólgleraugu sem huldu að einhverju leyti andlit hans.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, sagði í beinni útsendingu í gærkvöldi að um hefði verið að ræða „árás“. Hann var í viðtali vegna Evrópuþingskosninganna sem fara fram um helgina. Greint er frá á AP News.