Yfirvöld vinna nú í kapphlaupi við tímann til að finna lausn fyrir kjósendur í sóttkví. Embætti sóttvarnarlæknis hefur stungið upp á fjölmörgum lausnum svo að allir geti kosið í forsetakosningunum í dag.

Í gær birtust fregnir um að kjósendur í sóttkví gætu ekki kosið í forsetakosningunum. Málið vakti mikla athygli enda er það stjórnarskrárvarinn réttur allra til að kjósa lýðræðislega.

Málið er í höndum yfirkjörstjórna sex kjördæma að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Kjörstaðir eru opnir til 23 í kvöld í stærstu kjördæmunum.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir málið snúast fyrst og fremst um lagalegu hliðina á málinu. Margar hugmyndir séu á sveimi með útfærslu en nú sé kerfið í kapphlaupi við tímann til að ganga úr skugga um að allt standist lagalega séð.

„Það bjóst enginn við þessu og það eru allir að vinna í þessu. Það er enginn illvilji í gangi. Hér er komið upp vandamál og við þurfum bara að redda þessu. Þetta er kapphlaup við tímann,“ segir Jón Þór.

„Ef þetta gengur ekki þá verður fundur næsta mánudag hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem við munum ræða málið og passa að þetta komi aldrei fyrir aftur.“

„Þetta er sennilega snúið í framkvæmd,“ segir Víðir.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Við höfum komið með margar hugmyndir að útfærslum. Þetta strandar ekki hjá sóttvörnum heldur hjá lögunum,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður sóttvarnarlæknis.

Verið er að huga að útfærslum eins og bílaröð, líkt og þegar fólk gefur sýni hjá heilsugæslum. Fyrst og fremst þurfi að hugsa um heilsu talningarfólks og annarra sem starfa við kosningar.

196 á kosningaraldri

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra segir 196 aðila í sóttkví sem eru á kosningaaldri.

„Við erum í samskipti við dómsmálaráðuneytið sem heldur utan um þetta. Við höfum gefið álit á þeim hugmyndum sem verið er að skoða og hvort þær uppfylli öll skilyrði,“ segir Víðir í samtali við Fréttablaðið.

Dómsmálaráðuneytið og yfirkjörstjórnir þurfa að lokum að sjá hvort allt sé framkvæmanlegt.

„Þetta er sennilega snúið í framkvæmd,“ segir Víðir og bætir við: „Þetta eru greinilega mjög, og eiga að vera, stífar reglur um framkvæmd lýðræðislegra kosninga.“