Sam­tökin No Bor­ders leita nú læknis sem til er í að veita Amin Ghaysza­deh læknis­að­stoð og segja lækna neita að sinna honum.

Amin hefur verið í hungur­verk­falli frá því þann 23. ágúst, í kjöl­far þess að honum var gert ljóst að honum yrði vísað frá landi aftur til Grikk­lands. Amin er því nú á 15. degi hungur­verk­falls. Læknar Út­lendinga­stofnunar hafa að sögn No Bor­ders heim­sótt hann reglu­lega á meðan hungur­verk­fallinu stendur en segja að heim­sóknir læknanna ein­skorðist við öflun lífs­marks til að at­huga hvort flytja þurfi hann á bráða­mót­töku.

Elín­borg Harpa Önundar­dóttir, hjá No Bor­ders, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að nauð­syn­legt sé að skrá raun­veru­legt á­stand Amin fyrir endur­upp­töku­beiðni sem lög­fræðingar hans vinna nú að. Það sé ekki nægi­legt að vinna út frá þeim upp­lýsingum sem að læknar Út­lendinga­stofnunar afla.

Hafa leitað að lækni í tvo daga

Í til­kynningu frá No Bor­ders segir að lækirinn sem hafi hitt hann í gær, hafi neitað að gefa honum upp nafn sitt, og því sé einnig erfitt fyrir Amin að komast í þær upp­lýsingar sem safnað var.

„ÚTL kom með lækni til hans í gær sem tók lífs­merkin. Þegar hann spurði um nafn læknisins vildi læknirinn ekki gefa það upp, og því er ó­mögu­legt fyrir lög­mann Amin að komast í þær læknis­fræði­legu upp­lýsingar sem aflað var um á­stand hans, sem okkur skilst að hafi tak­markast af öflun lífs­marks,“ segir í til­kynningunni.

Þar segir jafn­framt að í tvo heila daga hafi þau leitað að lækni sem sé til í að sinna Amin. Þau hafi, meðal annars, leitað til göngu­deildar sótt­varna, sem eigi að sinna flótta­fólki, en þar hafi þeim verið tjáð að læknar deildarinnar „tækju ekki þátt í svona svindli“.

Að lokum biðla þau til lækna, sem lesa færslu þeirra, að hafa sam­band, því að Amin sé mjög illa á sig kominn.

Til­kynningu No bor­ders má sjá hér að neðan.

Vill frekar deyja hér en í Grikklandi

Í við­tali við Frétta­blaðið fyrr í vikunni sagði Amin að hann væri hræddur við að fara aftur til Grikk­lands. Hann fengi þar ekki við­eig­andi að­stoð, en hann hefur í mörg ár glímt við mikil and­leg veikindi. Hann óttaðist um líf sitt, verði hann sendur aftur til Grikk­lands. Amin sagði að hann langaði frekar að deyja á Ís­landi, en í Grikk­landi.