Yfirvöld á Spáni eru að leita að fjórtán einstaklingum sem flúðu flugvél eftir nauðlendingu í Barcelona. Alls komust 28 einstaklingar frá borði en búið er að finna helming einstaklinganna.

Fjallað er um málið í spænskum fjölmiðlum en þar kemur fram að kona um borð hafi fljótlega eftir flugtak tilkynnt flugþjónunum að fæðing væri að hefjast og að vatnið væri farið.

Við það var ákveðið að breyta um stefnu og lenda á flugvelli í Barcelona þar sem 28 einstaklingar ruddust frá borði þegar það átti að hjálpa konunni frá borði.

Þegar búið var að fara með konuna á næsta spítala kom það í ljós að hún virsti ekki vera ólétt. Hún á því von á kæru fyrir aðild sína að málinu.

Þetta er í annað sinn sem slíkt mál kemur upp á Spáni á undanförnum vikum en í síðasta mánuði náðu 25 einstaklingar að komast frá borði eftir nauðlendingu á Mallorca þegar einstaklingur virtist vera að detta í yfirlið.