Davíð Karl Wiium bróðir Jóns Þrastar er nú staddur á Íslandi, en fer aftur til Dyflinnar á morgun til að halda áfram að leita að bróður sínum. Hann segir að hans fyrsta verk á morgun verði að funda með lögreglunni. Lögreglan vinnur enn að því að skoða fjölda ábendinga sem þeim hefur borist varðandi hvarf Jóns Þrastar þann 9. febrúar síðastliðinn í Dyflinni.

„Þetta er hið dularfyllsta mál og það virðist vera erfitt að fá einhver svör. En um leið og eitthvað af þessum ábendingum gefur eitthvað þá breytist málið og þá er kannski hægt að staðsetja hann einhvers staðar annars staðar og einfaldara að ná honum á öðrum myndavélum, eða að einhver stígi þá fram. Þetta er hábjartur dagur á laugardegi og það var brjálað að gera. Það hlýtur einhver að vita eitthvað. Eitthvert hefur hann farið,“ segir Davíð.

Leita enn leigubílstjórans

Þó lítið hafi komið út úr þeim ábendingum sem bæði fjölskyldunni og lögreglunni hafa borist er Davíð jákvæður og segir það aðeins tímaspursmál hvenær eitthvað nýtt komi fram. Síðustu helgi var greint frá því að björgunarsveit í Dyflinni leitaði að Jóni Þresti á því svæði sem síðast sást til hans í borginni. Lögreglan leitar að leigubílstjóra sem talið er að hafi ekið Jóni eftir að hann sást á göngu í eftirlitsmyndavél, daginn sem hann hvarf.

Sjá einnig: Fjöldi á­bendinga borist: Leita að leigu­bíl­­stjóra í Dublin

„Þetta er enn þá í vinnslu, því miður. Það síðasta sem ég heyrði í gær eftir fund með lögreglu er að það er enn verið að fara yfir ábendingar. Í rauninni er ekkert breytt. Þetta reynist tímafrekt og ég er spenntur að komast aftur út til að fá þetta bein í æð. Að geta gert meira og sett meiri pressu,“ segir Davíð Karl Wiium bróðir Jóns Þrastar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hengja upp skilti og ræða við leigubílstjóra

Hann segir að það séu fjórir fjölskyldumeðlimir úti núna og svo á morgun bætist við hann, og Daníel bróðir þeirra.

„Við reynum væntanlega að skipta þessu einhvern veginn niður. Ég var búinn að vera í þrjár vikur og skaust aðeins heim og þarf núna að mæta aftur á svæðið. Þetta er farið að rífa í en það verður að halda áfram,“ segir Davíð.

Hann segir að hann hafi heyrt í systur sinni áðan og þá hafi þau verið að hengja upp skilti og ræða við leigubílstjóra.

„Eftir að björgunarsveitin kláraði leit sína og útilokaði svæðið fyrir ofan þá stækkaði leitarsvæðið alveg gífurlega mikið. Hann gæti í raun hafa farið hvert sem er, þannig við erum að fókusera á, á meðan við bíðum eftir svörum frá lögreglu, að vera sýnileg og bera orðið út,“ segir Davíð að lokum.

Hægt er að fylgjast með fréttum af leit fjölskyldunnar á Facebook-síðunni hér að neðan.