Vala Mörk Jóhannesdóttir, iðjuþjálfi, og fjölskylda hennar fundu einhvern tímann á árabilinu 2005 til 2007 gullhring á rólóvelli í Kjós með áletruninni „Þinn Þorsteinn“. Þau reyndu á sínum tíma að finna eigandann en eftir árangurslausar tilraunir endaði hann í skúffunni heima hjá þeim.

Vala fann hringinn svo við þrif í sumar og ákvað að reyna á ný, á Facebook, sem ekki var til á þeim tíma sem þau fundu hringinn.

„Þegar við fundum hann var ekki Facebook til, í kringum 2005 teljum við, miðað við aldur strákanna okkar,“ segir Vala í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hún telur ólíklegt að einhver hafi skilinn hringinn viljandi eftir á róluvellinum.

„Það hlýtur einhver að hafa týnt honum.“

Auglýstu í smáauglýsingum og höfðu samband við lögreglu

Vala segir að þau hafi, þegar þau fundu hringinn, haft samband við lögregluna, hafi auglýst á kaffihúsi nærri róluvellinum og hafi auglýst í smáauglýsingum dagblaðanna.

„Við reyndum í einhvern tíma að koma honum út, en það voru engin viðbrögð. Þetta var bara farið að verða brandari í fjölskyldunni að þau hafi rifist og konan hafi hent hringnum frá sér og ekki viljað sjá hann aftur,“ segir Vala og hlær.

Gleymdist ofan í skúffu í 14 ár

Hún segir að þegar þau fengu engin viðbrögð hafi hringurinn gleymst ofan í skúffu. Hún hafi svo verið að þrífa í skúffum heima hjá sér í sumar og hafi rekist á hringinn þar.

„Þá datt mér í hug að prófa Facebook,“ segir Vala sem auglýsti fundinn á Facebook fyrir meira en mánuði síðan, eða í byrjun ágúst, og bað fólk um aðstoð við að finna eigandann, eða Þorstein.

„Það er búið að deila færslunni rosalega oft. Síðan fór hún í ládeyðu í nokkrar vikur, en svo allt í einu núna fór þetta aftur í deilingu,“ segir Vala.

Vala segir að hringurinn sjálfur sé alveg einfaldur og frekar mjór. Hann sé úr gulli og áletrunin inni í hringnum. Hún segir að hann sé eflaust í millistærð.

„Hann er eflaust í einhverri millistærð, en ég hef aldrei látið mæla hann hjá gullsmið,“ segir Vala.

Hún segir að hún vonist til þess að eigandinn finnist.

„Það væri gaman að finna eigandann. Giftingarhringur er nú yfirleitt eitthvað sem skiptir fólk máli,“ segir Vala að lokum.

Hafi fólk vitneskju um það hver eigi hringinn eða hvernig hægt sér að komast í samband við eigandann er hægt að hafa samband við Völu í gegnum Facebook-færsluna sem er deilt hér að neðan, með hennar leyfi.