Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna, FBI, hefur nú aftur óskað eftir að­stoð al­mennings við að bera kennsl á ein­stak­linga sem tóku þátt í ó­eirðunum við þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn en fleiri myndir og mynd­skeið voru birt í dag. Hundruð þúsund á­bendinga hafa þegar borist frá al­menningi vegna ó­eirðanna.

„Al­ríkis­lög­reglan óskar nú eftir að­stoð al­mennings við að bera kennsl á tíu ein­stak­linga sem eru grunaðir um of­beldis­fyllstu glæpina gegn lög­reglu­mönnunum sem voru að vernda þing­húsið og lýð­ræðis­ferlið þann 6. janúar,“ sagði Ste­ven D‘Antu­ono, að­stoðar­for­stjóri FBI, í til­kynningu um málið.

Að sögn D‘Antu­ono er ljóst að í ein­hverjum til­fellum sé um fjöl­skyldu­með­limi eða að­stand­endur að ræða og því gæti það verið erfitt að til­kynna þá. Það sé þó nauð­syn­legt og hið rétta í stöðunni. „Þessir ein­staklingar sjást á mynd­bandi fremja sví­virði­lega glæpi gegn þeim sem hafa helgað líf sitt til þess að vernda banda­rísku þjóðina.“

65 handteknir fyrir að ráðast á lögreglumenn

Fleiri en 300 manns hafa þegar verið hand­teknir vegna ó­eirðanna og eiga yfir höfði sér á­kærur en af þeim voru 65 ein­staklingar á­kærðir fyrir að ráðast á lög­reglu­menn. Fjórir létust við ó­eirðirnar, þar á meðal einn lög­reglu­maður, en tveir karlmenn hafa nú verið ákærðir fyrir að ráðast á lögreglumanninn sem lést.

Banda­ríska þingið hefur síðast­liðnar vikur haft málið til rann­sóknar og kom meðal annars í ljós fyrr í mánuðinum að þing­menn hafi verið í mikilli hættu þegar stuðnings­menn Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, brutust inn.

Meiri­hluti full­trúa­deildar­þing­manna á­kvað í gær að veita lög­reglu­mönnum við þing­húsið sem sáu um að vernda bygginguna þann 6. janúar orðu fyrir hug­rekki. Að­eins tólf þing­menn voru á móti því að veita lög­reglu­mönnunum orðu, allir úr röðum Repúblikana.

Hér fyrir neðan má finna myndskeið af þeim tíu einstaklingum sem FBI lýsir nú eftir.