Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur nú aftur óskað eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á einstaklinga sem tóku þátt í óeirðunum við þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn en fleiri myndir og myndskeið voru birt í dag. Hundruð þúsund ábendinga hafa þegar borist frá almenningi vegna óeirðanna.
„Alríkislögreglan óskar nú eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á tíu einstaklinga sem eru grunaðir um ofbeldisfyllstu glæpina gegn lögreglumönnunum sem voru að vernda þinghúsið og lýðræðisferlið þann 6. janúar,“ sagði Steven D‘Antuono, aðstoðarforstjóri FBI, í tilkynningu um málið.
Að sögn D‘Antuono er ljóst að í einhverjum tilfellum sé um fjölskyldumeðlimi eða aðstandendur að ræða og því gæti það verið erfitt að tilkynna þá. Það sé þó nauðsynlegt og hið rétta í stöðunni. „Þessir einstaklingar sjást á myndbandi fremja svívirðilega glæpi gegn þeim sem hafa helgað líf sitt til þess að vernda bandarísku þjóðina.“
65 handteknir fyrir að ráðast á lögreglumenn
Fleiri en 300 manns hafa þegar verið handteknir vegna óeirðanna og eiga yfir höfði sér ákærur en af þeim voru 65 einstaklingar ákærðir fyrir að ráðast á lögreglumenn. Fjórir létust við óeirðirnar, þar á meðal einn lögreglumaður, en tveir karlmenn hafa nú verið ákærðir fyrir að ráðast á lögreglumanninn sem lést.
Bandaríska þingið hefur síðastliðnar vikur haft málið til rannsóknar og kom meðal annars í ljós fyrr í mánuðinum að þingmenn hafi verið í mikilli hættu þegar stuðningsmenn Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, brutust inn.
Meirihluti fulltrúadeildarþingmanna ákvað í gær að veita lögreglumönnum við þinghúsið sem sáu um að vernda bygginguna þann 6. janúar orðu fyrir hugrekki. Aðeins tólf þingmenn voru á móti því að veita lögreglumönnunum orðu, allir úr röðum Repúblikana.
Hér fyrir neðan má finna myndskeið af þeim tíu einstaklingum sem FBI lýsir nú eftir.
JUST IN: FBI releases trove of videos of unidentified #CapitolRiot suspects assaulting police w/ baton, jagged pieces of wood, spray, ripping off officer's gas mask. Some suspects' faces can't be clearly seen during the attack but FBI found pix in crowd https://t.co/6RyUvgJ969
— Josh Gerstein (@joshgerstein) March 18, 2021
NEW: Congress votes 413-12 to approve legislation awarding Capitol Police and other law enforcement with Congressional Gold Medals for protecting the Capitol on 1/6.
— Brian Tyler Cohen (@briantylercohen) March 17, 2021
All 12 NO votes were Republicans including Matt Gaetz, Louie Gohmert, Marjorie Taylor Greene, and Thomas Massie.