Bjartur Aðal­björns­son, land­eig­andi á Brettings­stöðum á Flat­eyjar­dal, segir að samtal við gesti sem bar að garði í gærkvöldi hafi orðið til þess að lögregla var kölluð til og leit hafin af manninum.

„Við vorum með gesti hjá okkur sem voru hérna líka fyrir tíu dögum síðan. Þau bentu okkur á að sami bíllinn stæði enn á tjald­svæðinu og hafði verið þá,“ segir Bjartur. Hann á­samt fleirum hafi farið strax af stað til að grennslast fyrir um málið.

„Við sáum að bíllinn var mann­laus, en það var miði í fram­rúðunni þar sem þar sem eig­andinn sagði hvert hann ætlaði að ganga. Við höfðum strax sam­band við lög­regluna á Húsa­vík og þannig fór boltinn að rúlla,“ segir Bjartur.

Að sögn Bjarts mætti lög­regla á tjald­svæðið á Hofi þar sem bíllinn var um tvö­leytið í nótt, en al­mennt hafi björgunar­sveitir af norður­landi verið ræstar út um klukkan níu í morgun.

„Það er verið að ganga upp með öllu og leita á sjó líka á slöngu­bátum og fleiri bátum, og þeir eru með dróna. Hann ætlaði lík­lega að ganga til baka skriðurnar í Bjarnar­fjalli, en þær eru ó­færar,“ segir Bjartur.

Á miðanum stóð að maðurinn hafi ætlað að ganga upp Jökul­brekku og yfir í Kaðal­dal og svo aftur til baka yfir í Flat­eyjar­dal. „Við bræður fórum upp í brekkuna til að at­huga um­merki en fundum ekki neitt. Þetta er svo­lítið klifur í snjó sem gæti kannski verið erfitt fyrir mann á átt­ræðis­aldri,“ segir Bjartur.

Lög­reglan á Norður­landi eystra hefur gefið út frétta­til­kynningu vegna málsins. Maðurinn sem leitað er að heitir Bernd Meyer. Hann er fæddur 1947 og er frá Þýska­landi. Hann kom til landsins í júní og er talið að hann sé einn á ferð.

Lög­reglan biðlar til þeirra sem hafa hugsan­lega hitt Bernd Meyer eða hafa ein­hverjar upp­lýsingar um ferðir hans að hafa sam­band, annað­hvort í síma 444-2800 eða á póst­fangið nordur­land.eystra@log­reglan.is.

Bif­reiðin sem Meyer var á er dökk­grænn og svartur VW Tran­sporter, út­búinn sem ferða­bíll.

Fréttin verður upp­færð.