„Okkur langaði að efla tæknifærni fullorðinna. Við náðum einu góðu námskeiði áður en öllu var skellt í lás. Núna erum við að leita leiða til að vera með fjarkennslu,“ segir Rannveig Ernudóttir, virkniþjálfi og umsjónarkona í félagsstarfi fullorðinna í Reykjavík. Í febrúar fór af stað námskeið í tæknilæsi fyrir eldra fólk, allt frá því að nota heimabanka til samfélagsmiðla.

Margt eldra fólk er nú í sjálf-skipaðri sóttkví vegna COVID-19 faraldursins. Félagsmiðstöðvar fyrir fullorðna hafa verið lokaðar og heimsóknir á hjúkrunarheim-ili bannaðar. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, sagði við Fréttablaðið nýverið að skrifstofan hefði vart undan að útvega leiðbeiningar fyrir snjalltæki.

„Þetta er oft lokaður heimur sem margir veigra sér við að fara inn í. Bæklingarnir sem Landssamband eldri borgara gaf út eru algjör snilld, en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir beina kennslu og end-urtekningar, fá fólk til að vera ekki smeykt við að prófa alla takkana á símanum,“ segir Rannveig.

Huginn Þór Jóhannsson, sonur Rannveigar, átti hugmyndina að námskeiðinu. Hann starfar einnig á velferðarsviði Reykjavíkurborg-ar ásamt því að vera nemandi í Tækniskólanum, þar áður var hann kennari hjá Skema, fyrirtæki sem heldur tækninámskeið fyrir börn og unglinga. Sjálf starfar Rannveig við félagsstarf á Dalbraut í Reykjavík. Fengu þau mæðginin gott teymi til liðs við sig við námskeiðið sem hófst í febrúar. Sögðu þau frá verkefninu í Félagstíðindum FEB nýlega.

„Fyrsta námskeiðið gekk alveg glimrandi vel. Við vorum byrjuð að tala um einhvers konar fjarkennslu. Svo hefur lítið getað unnist í þessu vegna ástandsins. Núna hefur þörf-in samt aldrei verið meiri,“ segir Rannveig. „Með því gefst okkur kost-ur á að vera með kennslu fyrir miklu fleiri og á öllum stöðum á landinu.“

Vandinn er núna hvernig skipu-leggja megi kennslu í gegnum tækni fyrir fólk sem þarf að læra tækni. „Við stefnum á að byrja að taka upp kennslumyndbönd á mánudaginn og setja þau á Facebook. Þeir sem kunna á tölvupóst geta nálgast efnið með því að senda okkur póst á taeknilaesifullordinna@gmail.com,“ segir Rannveig. „Óskastaðan væri svo að koma þessu í sjónvarpið.“

Rannveig veit vel hvernig fólki líður þegar það kann ekki á tækni. „Ég gleymi því aldrei þegar amma mín, sem lést árið 2011, sagði mér að hún væri hætt að fá símreikninginn sinn. Svörin sem hún fékk þegar hún hringdi var að hún gæti nálgast allar upplýsingar á netinu. Hún sagði mér að henni fyndist hún hreinlega ekki vera læs á umhverfið sitt lengur. Þetta hefur setið í mér síðan.“