Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg leitar að styrktar­aðilum til að koma með sér inn í stærsta fjár­festingar­verk­efni fé­lagsins sem er að endur­nýja björgunar­skipa­flotann.

„Fyrsti báturinn af þremur er kominn til Vest­manna­eyja. Þar greiddi ríkið helminginn á móti okkur. Það er í gildi vilja­yfir­lýsing um tíu björgunar­báta í við­bót,“ segir Otti Rafn Sig­mars­son for­maður Lands­bjargar. Nýr bátur kostar hátt í 300 milljónir og stendur til að endur­nýja alla þrettán bátana.

Fyrsta skipið, Þór, var vígt í Vest­manna­eyjum um helgina. Næsta fer á Siglu­fjörð í janúar og það þriðja verður stað­sett í Reykja­vík. „Það er ekki verið að taka nokkur skref á­fram heldur margar kyn­slóðir á­fram í björgunar­skipa­rekstrinum. Þetta eru öflugustu og best búnu björgunar­skip Evrópu í dag,“ segir Otti.

Næsta skref hjá Lands­björg er að halda á­fram sam­talinu við ríkið og fá fleiri að borðinu en Sjó­vá styrkti Lands­björg um 142 milljónir. „Við erum að leita að fleirum til að koma um borð í þetta verk­efni. Út­gerðirnar til dæmis sem hafa hag af því að hafa þessa hluti í lagi. Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir for­maðurinn.