Fjögur sorpsamlög á suðvesturhorni landsins skoða nú kaup á brennsluofni til að farga úrgangi á svæðinu frá Gilsfirði í vestri að Markarfljóti í austri, en þar falla til allt að 85 prósent af öllu sorpi á landinu.

Fjárfestingin er ærin. Líf Magneudóttir, formaður stjórnar Sorpu, segir að brennsluofn sem þarf að anna allt að 100 þúsund tonnum á ári kosti líklega á bilinu 20 til 30 milljarða króna. „Það tekur líka tíma að panta svona ofn og setja hann upp, örugglega nokkur ár,“ segir hún.

Líf segir að í ljósi vaxandi krafna um bætta meðhöndlun og flokkun úrgangs og áherslu á að lágmarka þörf fyrir urðun, liggi fyrir að finna þurfi viðunandi úrræði til að brenna úrgang sem nú er urðaður.

Sorpsamlögin og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa gert með sér samning í þessa veru og á starfshópur að undirbyggja sem best ákvörðun um tæknilausnir, meðal annars hvort nota megi ofninn til húshitunar, svo og mögulega þjónustu fyrir allt landið, áhættugreiningu og staðarval.

„Það þarf að vanda vel til verka hvað staðsetningu varðar,“ segir Líf. „Og augljóst að það vilja ekki allir hafa svona starfsemi í nágrenni sínu.“ En hugsa þurfi um umhverfið, mestallt sorpið falli til á höfuðborgarsvæðinu og ekki gangi að keyra mesta magnið langar leiðir. Mögulega þurfi ofninn að vera nálægt höfn, verði sorp flutt með skipum í ofninn víða að af landinu.

Heimild til urðunar sorps í Álfsnesi rennur út í árslok 2023, eins og tilgreint er í samningi við landeigendur. Þar er kveðið á um að 77 þúsund tonn megi urða í ár, en aðeins 38 þúsund hvort árið 2022 og 2023.

Sorpsamlögin fjögur sem standa að undirbúningi á brennslu sorps eru Sorpa, Kalka, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands. Gert er ráð fyrir að undirbúningsniðurstöður liggi fyrir í árslok.