Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að ökumanni hvíts, nýlegs jeppa í tengslum við umferðarslys sem varð á Reykjanesbraut um klukkan tíu fyrir hádegi tíunda mars síðastliðinn.

Ekið var í veg fyrir ökumann á rauðum Skoda Octavia sem var á leið norður Reykjanesbraut, á móts við Brunnhóla í Hvassahrauni. Ökumaðurinn missti í kjölfarið stjórn á bílnum og hafnaði utan vegar.

Tveir voru fluttir á slysadeild í kjölfarið og reyndist annar þeirra vera talsvert slasaður.

Ökumaður jeppans ók beint af vettvangi en hann er talinn vera lágvaxinn. Lögregla hvetur manninn til að gefa sig fram.

Sömuleiðis eru möguleg vitni að slysinu beðin um að hafa samband í síma 444-1000, í gegnum tölvupóst á netfangið helgig@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook síðu lögreglunnar.