Samtökin ’78 og málnefnd um íslenskt táknmál leita nú að táknum til að lýsa fjórum hinsegin orðum sem ekki eru enn orðin hluti af íslenska táknmálinu.
Þátttakendur í samkeppninni, sem hefur fengið nafnið Hýr tákn, eru hvattir til að senda inn tillögur til dómnefndar. Sigurtáknin verða tilkynnt á degi íslensks táknmáls, 11. febrúar. Orðin sem um ræðir eru eikynhneigð, kynsegin, kvár og stálp.
Eikynhneigð er kynhneigð þeirra sem laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðru fólki. Þau sem eru kynsegin upplifa sig ekki sem karl eða kona í hefðbundnum skilningi. Sum upplifa sig sem bæði, hvorugt eða flæðandi á milli. Kvár er orð yfir kynsegin manneskju sambærilegt orðunum kona eða karl. Stálp er orð yfir kynsegin börn sambærilegt orðunum stelpa eða strákur.
Fylla inn í eyður
Undanfarin ár hafa Samtökin haldið keppnina Hýryrði þar sem hinsegin nýyrði eru smíðuð til að fylla inn í eyður í tungumálinu. Orðin eikynhneigð og kvár urðu bæði til í gegnum samkeppnina.
„Í ár viljum við beina sjónum að öðru opinberu tungumáli á Íslandi, íslensku táknmáli, og höfum við gengið til samstarfs við málnefnd um íslenskt táknmál um að halda Hýr tákn,” segir í tilkynningu frá Samtökunum.
Opið er fyrir tillögur til og með fimmtudeginum 3. febrúar. Táknin verða endursögð af fulltrúa málnefndarinnar til að tryggja nafnleysi tillaga.
Dómnefndin er skipuð fulltrúa Félags heyrnarlausra, fulltrúa málnefndar um íslenskt táknmál og einstakling sem tilheyrir bæði hinsegin og döff samfélaginu. Hægt er að senda tillögur inn á myndbandsformi á heimasíðu Samtakanna ’78.