Sam­tökin ’78 og mál­nefnd um ís­lenskt tákn­mál leita nú að táknum til að lýsa fjórum hin­segin orðum sem ekki eru enn orðin hluti af ís­lenska tákn­málinu.

Þátt­tak­endur í sam­keppninni, sem hefur fengið nafnið Hýr tákn, eru hvattir til að senda inn til­lögur til dóm­nefndar. Sigur­táknin verða til­kynnt á degi ís­lensks tákn­máls, 11. febrúar. Orðin sem um ræðir eru eikyn­hneigð, kyn­segin, kvár og stálp.

Eikyn­hneigð er kyn­hneigð þeirra sem laðast lítið eða ekkert kyn­ferðis­lega að öðru fólki. Þau sem eru kyn­segin upp­lifa sig ekki sem karl eða kona í hefð­bundnum skilningi. Sum upp­lifa sig sem bæði, hvorugt eða flæðandi á milli. Kvár er orð yfir kyn­segin mann­eskju sam­bæri­legt orðunum kona eða karl. Stálp er orð yfir kyn­segin börn sam­bæri­legt orðunum stelpa eða strákur.

Fylla inn í eyður

Undan­farin ár hafa Sam­tökin haldið keppnina Hýr­yrði þar sem hin­segin ný­yrði eru smíðuð til að fylla inn í eyður í tungu­málinu. Orðin eikyn­hneigð og kvár urðu bæði til í gegnum sam­keppnina.

„Í ár viljum við beina sjónum að öðru opin­beru tungu­máli á Ís­landi, ís­lensku tákn­máli, og höfum við gengið til sam­starfs við mál­nefnd um ís­lenskt tákn­mál um að halda Hýr tákn,” segir í til­kynningu frá Sam­tökunum.

Opið er fyrir til­lögur til og með fimmtu­deginum 3. febrúar. Táknin verða endur­sögð af full­trúa mál­nefndarinnar til að tryggja nafn­leysi til­laga.

Dóm­nefndin er skipuð full­trúa Fé­lags heyrnar­lausra, full­trúa mál­nefndar um ís­lenskt tákn­mál og ein­stak­ling sem til­heyrir bæði hin­segin og döff sam­fé­laginu. Hægt er að senda til­lögur inn á mynd­bands­formi á heima­síðu Sam­takanna ’78.