Ferða­mála­stofa aug­lýsti í dag eftir gisti­stöðum á landinu sem geta tekið á móti fólki sem þarf að fara í sótt­kví. Allir sem koma til landsins frá og með næsta mið­viku­degi verða að fara í fjögurra til fimm daga sótt­kví eftir komuna til landsins áður en þeir fara í seinni sýna­töku.

Talið er að þessar nýju reglur við landa­mærin muni virka ó­að­laðandi fyrir ferða­menn, sem vilja heim­sækja Ís­land, og má búast við að dag­legur far­þega­fjöldi verði minni á næstunni en hann hefur verið hingað til. Undan­farið hafa í kringum þrjú þúsund sýni verið tekin dag­lega við landa­mærin. Þó er ljóst að á­fram munu ein­hverjir heim­sækja landið þrátt fyrir að þurfa að fara í nokkurra daga sótt­kví og er nauð­syn­legt að á landinu verði ein­hverjir gisti­staðir sem eru til­búnir til að hýsa þá.

Á vef Ferða­mála­stofu geta gisti­staðir, sem eru til­búnir að taka á móti gestum í sótt­kví, skráð sig sér­stak­lega sem slíkir gisti­staðir. Þeir verða að upp­fylla á­kveðin skil­yrði og verða her­bergi, sem ætluð eru gestum í sótt­kví, öll að vera í sér­álmu á hæðum þar sem gestir dvelja ekki. Einnig gengur að hafa gesti í sótt­kví í litlum gesta­húsum.

Afhenda mat við herbergisdyr

Í leið­beiningum frá Ferða­mála­stofu fyrir gisti­staði sem ætla að taka á móti gestum í sótt­kví segir að nauð­syn­legt sé að rekstrar­aðilar þekki vel þær reglur sem gilda hér á landi um Co­vid-19 og geta leið­beint gestum sínum. Hvert og eitt her­bergi verður að vera með sér­bað­her­bergi og salerni og verður að tryggja nægar birgðir af hand­klæðum, salernis­pappír og sápu á her­berginu fyrir gesti til að minnsta kosti fimm daga.

Öll þjónusta starfs­manna gisti­heimilanna við gestina verður þá að fara fram við her­bergis­dyr og mega starfs­menn alls ekki fara inn í her­bergi gestanna. Þannig verður allur matur skilinn eftir fyrir utan her­bergis­dyrnar. Starfs­fólk verður svo að vera til­búið hve­nær sem er til að sækja lífs­nauð­syn­lega hluti fyrir gestina, eins og lyf og annað.

Þá er tekið fram að gisti­staður sé ekki á­byrgur fyrir hegðun gesta sinna en ef grunur leikur á að gestur sé að brjóta sótt­kvíar­reglur þá verður staðurinn að hafa sam­band við lög­reglu. Staðurinn skal þá hjálpa gestunum að panta tíma í seinni sýna­töku hjá næstu heilsu­gæslu­stöð.

Ferða­menn mega ekki gera margt á meðan þeir eru í sótt­kví, frekar en aðrir. Þeir verða að halda sig sem mest í sínu her­bergi á gisti­staðnum en mega þó fara út í göngur. Þar verða þeir auð­vitað að tryggja tveggja metra regluna og mega ekki staldra við á sam­eigin­legum svæðum gisti­staðarins. Ef þeir hafa bíl til um­ráða mega þeir svo fara í bíl­túra en mega ekki fara í skoðunar­ferðir á fjöl­mennum ferða­manna­stöðum.