Kæfisvefn, þar sem fólk hættir að anda reglulega yfir nóttina og hrýtur oft mikið þess á milli, svefnleysi og fótaóeirð í svefni, eru meðal helstu vandamála sem tengjast svefni.

Þetta er eitt rannsóknarefna Svefnbyltingarinnar, fjögurra ára rannsóknarverkefnis, sem leitt er af Ernu Sif Arnardóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumanns Svefnseturs.

Svefnbyltingin fékk tveggja og hálfs milljarðs króna styrk úr Horizon 2020 rammaáætlun Evrópusambandsins fyrir rannsóknir og nýsköpun. Markmið verkefnisins er að nútímavæða og uppfæra rannsóknaraðferðir í kringum kæfisvefn.

„Staðreyndin er sú að sé fólk með kæfisvefn þá eru auknar líkur á ýmsum öðrum sjúkdómum, eins og hjartasjúkdómum og háþrýstingi ásamt oft mikilli dagsyfju,“ segir Erna.

Að sögn Ernu er mikilvægt að rannsaka svefngæði fólks og komast að því hvort hægt sé að bæta þau með einföldum lífsstílsbreytingum eða hvort þurfi að leita frekari þjónustu heilbrigðiskerfisins.

„Sé mikill hluti fólks vansvefta þá hefur það ekki bara áhrif á lífsgæði fólks heldur líka efnahagsleg áhrif, bæði á einstaklinga sem og á samfélagið,“ bætir hún við.Lára Jónasdóttir er verkefnastjóri Svefnbyltingarinnar og segir hún verkefnið fara vel af stað.

„Í sumar erum við að safna svefnmælingum þar sem verið er að sannreyna nýja, einfaldari uppsetningu mælibúnaðar og gildi tveggja mismunandi snjallúra til að mæla svefn,“ segir Lára.

„Þessar mælingar munu svo vera nýttar í næstu skref Svefnbyltingarinnar þar sem eingöngu einfaldari mælibúnaður er notaður,“ bætir Lára við.

Nú stendur yfir leit að þátttakendum í rannsóknina og segir Lára leitina ganga nokkuð vel. „En við erum að vonast til að fá enn fleiri áhugasama til að taka þátt í sumar,“ tekur hún fram.

Þátttaka felst í því að fólk sofi eina nótt heima hjá sér með svefnmælibúnað sem mælir öndun, heilarit, augnhreyfingar og fleira til að mæla svefnstig, meðal annars magn djúpsvefns og draumsvefns.

Hér er linkur fyrir áhugasama þátttakendur.

„Við erum að leita að alls konar fólki, bæði einstaklingum sem sofa vel og þeim sem hafa upplifað einhver vandamál tengd svefni, til dæmis þeim sem hefur verið sagt að þau hrjóti og hætti að anda í svefni eða eiga erfitt með svefn,“ segir Lára.

„Þeir sem gefa okkur tíma sinn með því að sofa með mælibúnað, fá svo að nokkrum vikum liðnum ítarlega greiningu á svefni sínum,“ bætir Lára við.

Aldrei fyrr hefur verið veittur jafn hár styrkur til rannsóknar hér á landi. Erna segir niðurstöðurnar geta gagnast Íslendingum og vonandi einstaklingum um allan heim, til að mynda með betra aðgengi að svefnmælingum og bættri meðferð við svefnvandamálum.

„Og að vita betur hver þarf í raun á meðferð við slíkum vanda að halda og bæta meðferðarúrræði svo einstaklingar greinist fyrr en nú og fái viðeigandi aðstoð,“ segir Erna.