Leit hófst að nýju klukkan tíu í morgun að skipverjanum sem féll fyrir borð af fiskiskipi sem var á veiðum utarlega í Faxaflóa á fimmta tímanum í gær.
Að sögn Guðmundar Birkis Agnarssonar, aðgerðarstjóra stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar, eru átta skip og bátar annaðhvort komin á svæðið eða á leiðinni til leitar. Þá gæti mögulega bæst við.
„Það er áætlað að senda aðra þyrlu Landhelgisgæslunnar á svæðið þegar birtir betur, en við erum að meta stöðuna með tilliti til veðurs, aðallega skýjafars og úrkomu,“ segir Guðmundur Birkir.
„Við munum svo halda áfram leit í dag og alveg fram á myrkur. Við metum svo stöðuna í kjölfarið á því, seinnipartinn í dag,“ segir Guðmundur Birkir.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá fiskiskipið laust fyrir klukkan fimm í gær, þar sem leitað var að skipverja sem fallið hafði fyrir borð. Skipið var þá á veiðum utarlega í Faxaflóa.
Landhelgisgæslan kallaði út til nærstaddra skipa og bað um aðstoð. Þá voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sem og varðskipið Þór send á vettvang til leitar, auk þess sem kölluð voru út björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæðinu frá Vestmannaeyjum að Akranesi. Fimmtán skip og bátar, ásamt tveimur þyrlum, voru við leit til miðnættis, án árangurs.
Guðmundur Birkir segir að ákveðið hefði verið að draga úr umfangi leitar laust fyrir klukkan eitt í nótt.
„Um tvöleytið drógum við alveg úr leitinni. Báðar þyrlurnar, auk flestra skipa og báta, hættu leit, en varðskipið Þór var áfram á svæðinu í nótt og er enn. Við ákváðum að hleypa bæði fiskibátum og björgunarbátum frá Slysavarnafélaginu í land til að hvíla mannskapinn.
Guðmundur Birkir segir að aðstæður til leitar í gærkvöldi og nótt hafi verið góðar.
„Það var hæglætis veður og ágætt í sjó og ágætt skyggni þrátt fyrir myrkur. Þannig að það var ekki nein úrkoma eða skýjafar að trufla,“ segir Guðmundur Birkir.