Leit hófst að nýju klukkan tíu í morgun að skip­verjanum sem féll fyrir borð af fiski­skipi sem var á veiðum utar­lega í Faxa­flóa á fimmta tímanum í gær.

Að sögn Guð­mundar Birkis Agnars­sonar, að­gerðar­stjóra stjórn­stöðvar Land­helgis­gæslunnar, eru átta skip og bátar annað­hvort komin á svæðið eða á leiðinni til leitar. Þá gæti mögu­lega bæst við.

„Það er á­ætlað að senda aðra þyrlu Land­helgis­gæslunnar á svæðið þegar birtir betur, en við erum að meta stöðuna með til­liti til veðurs, aðal­lega skýja­fars og úr­komu,“ segir Guð­mundur Birkir.

„Við munum svo halda á­fram leit í dag og alveg fram á myrkur. Við metum svo stöðuna í kjöl­farið á því, seinni­partinn í dag,“ segir Guð­mundur Birkir.

Stjórn­stöð Land­helgis­gæslunnar barst neyðar­kall frá fiskiskipið laust fyrir klukkan fimm í gær, þar sem leitað var að skip­verja sem fallið hafði fyrir borð. Skipið var þá á veiðum utar­lega í Faxa­flóa.

Land­helgis­gæslan kallaði út til nær­staddra skipa og bað um að­stoð. Þá voru tvær þyrlur Land­helgis­gæslunnar sem og varð­skipið Þór send á vett­vang til leitar, auk þess sem kölluð voru út björgunar­skip Slysa­varna­fé­lagsins Lands­bjargar á svæðinu frá Vest­manna­eyjum að Akra­nesi. Fimm­tán skip og bátar, á­samt tveimur þyrlum, voru við leit til mið­nættis, án árangurs.

Guð­mundur Birkir segir að á­kveðið hefði verið að draga úr um­fangi leitar laust fyrir klukkan eitt í nótt.

„Um tvö­leytið drógum við alveg úr leitinni. Báðar þyrlurnar, auk flestra skipa og báta, hættu leit, en varð­skipið Þór var á­fram á svæðinu í nótt og er enn. Við á­kváðum að hleypa bæði fiski­bátum og björgunar­bátum frá Slysa­varna­fé­laginu í land til að hvíla mann­skapinn.

Guð­mundur Birkir segir að að­stæður til leitar í gær­kvöldi og nótt hafi verið góðar.

„Það var hæg­lætis veður og á­gætt í sjó og á­gætt skyggni þrátt fyrir myrkur. Þannig að það var ekki nein úr­koma eða skýja­far að trufla,“ segir Guðmundur Birkir.