Alls bárust 24 beiðnir um leit að börnum og ung­mennum í janúar og fjölgar þessum beiðnum á milli mánaða sam­kvæmt af­brota­töl­fræði lög­reglunnar fyrir janúar­mánuð. Það er mesti fjöldi sem hefur borist inn á borð lög­reglu síðan í júní þegar 25 beiðnir bárust. Árið 2020 bárust lög­reglunni 18 leitar­beiðnir í janúar.

Guð­mundur Fylkis­son, aðal­varð­stjóri hjá lög­reglunni, sem sinnir þessum málum segir að oft sé um að ræða leit að sama ein­stak­lingi og það skekki töl­fræði­myndina.

„Ein­staklingarnir á bak við þessa tölu eru níu. Ég var því oft að leita að þeim sömu og í rauninni hef ég ekki miklar á­hyggjur af auknum beiðnum því þetta eru fáir ein­staklingar,“ segir hann. Guð­mundur segir að það sem af er febrúar séu 12 leitar­beiðnir og átta ein­staklingar eigi þar í hlut. „Ég annað­hvort finn þau eða fæ þau til að skila sér sjálf. Það fer oft þannig.“

Að sögn Guð­mundar eru þetta ekki endi­lega krakkar sem eiga við fíkni­vanda að stríða. „Það eru til dæmis ekki mjög mörg börn í mikilli neyslu, þeim er sem betur fer að fækka. Þetta getur verið meiri hegðunar­vandi eða and­leg veikindi,“ segir Guð­mundur og bendir á að oft sé erfiðara að eiga við and­leg veikindi en þegar krakkarnir eru í mikilli neyslu.

„Ef þetta er að breytast og þeim sem glíma við and­leg vanda­mál er að fjölga, þá getur það orðið vanda­mál því það getur verið erfiðara að eiga við það en börn með fíkni­vanda. Þetta er ekki alveg klippt og skorið en ég hef ekki stórar á­hyggjur af fjölda leitar­beiðna.“ Guð­mundur, sem hefur hlotið viður­kenningu Barna­heilla og verið út­nefndur Hafn­firðingur ársins, segir að það sé já­kvætt að notast við snemmtæka í­hlutun en langur vegur sé þar til árangur náist.

Treystir á þá sem vita meira

„Ég sé þetta sem lang­hlaup og trú­lega mun það taka ára­tug að koma horfinu í við­eig­andi lag. Ég er alveg til í að kaupa þá leið sem fólkið með há­skóla­menntun segir að virki. Að grípa fyrr inn í, því þá sé hægt að koma í veg fyrir vanda­mál síðar á lífs­leiðinni. Ég er bara með stúdents­próf og treysti á þá sem vita meira.“

Guð­mundur fagnar einnig að fé­lags-, heil­brigðis- og mennta­kerfið sé farið að vinna saman í þessum málum og nefnir sér­stak­lega afeitrunar­deild fyrir ó­lög­ráða ung­menni, sem var opnuð í fyrra á Land­spítalanum. Það hafi verið já­kvætt skref. „Ég fer á eftir­laun eftir níu ár og það er mín von að þetta verði þá komið á betri stað,“ segir Guð­mundur.