Leit að skip­verja sem talið er að hafi fallið fyrir borð á Er­ling KE – 140 í Vopna­firði á mánu­­dag er lokið í dag. Þetta stað­festir Hin­rik Ingólfs­son, for­maður björgunar­sveitarinnar Vopna.

Ekkert nýtt kom úr leitinni í dag þrátt fyrir að skil­yrði hafi verið góð framan af. Stefnt er að því að halda leitinni á­fram á morgun en þó með minna sniði. Alls tóku 25 manns þátt í leitar­að­gerðum í dag.

Áhersla á sjóleit

Unnið var að því að fín­kemba leitar­svæðið sem nær frá Tanga­sporði inn í Sand­vík og sand­fjörurnar í botni Vopna­fjarðar, á­samt því sem gengið var í fjörur og farið með bátum með fram ströndinni.

Á morgun verður aukin á­hersla lögð á leit í sjó en mögu­legt er að báta­hópar haldi leit á­fram í kvöld ef skil­yrði eru góð.