Leitin að skip­verjanum sem talið er að hafi fallið fyrir borð á Er­ling KE – 140 í Vopnafirði hófst að nýju um klukkan 7:30 í morgun.

Mannsins hefur verið saknað frá því á mánudag þegar lögreglu barst tilkynning um skipverja sem var saknað af fiskiskipi eftir að það kom til hafnar.

Björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitinni Vopna í Vopnafirði standa að leitinni og munu í dag njóta aðstoðar björgunarsveitarinnar Lífsbjargar úr Snæfellsbæ, er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Býr sú sveit yfir leitartæki sem nýtist til að skanna botn á grunnsævi.

Leitarsvæðið er hið sama og áður, frá Tangasporði að Sandvík auk þess sem leitað verður í sandfjörum á svæðinu. Leitað verður á sjó í dag og meðfram strandlengjunni.

Hin­rik Ingólfs­son, for­maður björgunar­sveitarinnar Vopna, sagði í samtali við Fréttablaðið eftir lok leitar í gær að ekkert nýtt hafi komið út úr leit dagsins þrátt fyrir að skil­yrði hafi verið góð framan af.

Í gær tóku 25 manns þátt í aðgerðum en Hinrik reiknaði með því að þær yrðu með minna sniði í dag.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er skip­verjinn með­limur í 15 manna á­höfn á skipinu Er­ling KE- 140. Skipið er í eigu Salt­ver ehf. en Brim hf. er með skipið í leigu og er skráður út­gerðar­aðili þess.

Allt að 170 manns tóku þátt í leitinni að honum á þriðjudag. Eftir­lits­flug­vél Land­helgis­gæslunnar, TF-SIF, var þá send til Vopna­fjarðar til að að­stoða við leitina.