„Aðalþunginn er sunnanvert Þingvallavatn og strendurnar og bakkarnir þar í kring,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Leit stendur nú yfir af fólkinu sem var í flugvélinni sem fórst yfir Þingvallavatni um hádegisbil á föstudag. Flak vélarinnar fannst í gær. Flakið var mannlaust og fljótlega lá fyrir að fólkið hafi komist úr vélinni af sjálfsdáðum.

Leitin fer fram á vatninu, við vatnið og úr lofti. „Þarna eru gönguhópar og bátahópar. Svo er leitað með drónum úr lofti,“ segir Oddur. „Menn munu klára að vinna þetta á meðan er bjart,“ segir hann.

Oddur útskýrir að búist sé við veðurhvelli með kvöldinu. „Það verður örugglega verkefni fyrir björgunarsveitirnar,“ segir hann.

Aðspurður um umfang leitarinnar og fjölda leitarfólks, segir Oddur að verkefnið sé töluvert umfangsminna en í gær. „Ég er ekki með tölurnar á því en þetta er afmarkaðra verkefni,“ segir hann.

Aðstandendur fólksins úr vélinni komu til landsins í gær.