Skúli Eggert Sigurz varð fyrir hrottalegri hnífaárás fyrir réttum áratug á lögmannsstofunni Lagastoð í Lágmúla.

Á örfáum sekúndum stakk andlega veikur maður hann margsinnis, í lungu, lifur og nýra, áður en Guðni Bergsson kom fyrstur til bjargar og var sjálfur stunginn tvívegis í lærið.

„Ég sé að að það er verið að reyna að komast inn á skrifstofuna og það er Guðni Bergsson,“ lýsir Skúli.

„Hann kemst inn og tekur um hálsinn á honum, nær einhvern veginn að sparka hnífnum úr hendinn á honum en áður en hann gat það var hann búinn að stinga Guðna tvisvar, á stórhættulegan stað.“

Eftir það komu tveir aðrir menn, Valtýr Sigurðsson og Haukur Guðmundsson, og yfirbuguðu manninn.

„Þeir ná honum og ná að henda hnífnum frá og draga hann fram af skrifstofunni og þegar hann var búinn að missa hnífinn var allt púður úr honum. Hann eiginlega bara sat hálf stjarfur í stól þarna frammi.“

Í fyrsta skipti segir Skúli Eggert Sigurz söguna alla, af kraftaverkinu að geta lifað af svo mikinn blóðmissi að Blóðbankinn tæmdist allur.

Jafnvel eftir að hafa verið stunginn fimm sinnum, þar af þrisvar í lungun, einu sinni í lifrina og einu sini nálægt slagæð, þá staulaðist Skúli Eggert á fætur og studdi sig við skrifborð inni á skrifstofunni, leit niður og sá blóðið gusast niður.

„Ég gat staðið í lappirnar en ég man að þar sem ég stóð við borðið sá ég konu mína frammi á ganginum, alveg stjörf, og ég segi: „Ég held að mér sé að blæða út.““

Þetta er saga af fádæma æðruleysi og fyrirgefningu. Mannamál kl. 19 í kvöld og strax aftur kl. 21:00