Okkur langaði að vekja athygli á hverju einasta máli sem hefur verið látið niður falla í þessu kerfi sem er almennt ekki hliðhollt þolendum,“ segir Eva Huld en þær stefna á að sýna verkin í nóvember. Þá geta gestir upplifað umfang vandans á áhrifaríkan og sjónrænan hátt. „Það er allt annað að ganga inn í rými, þar sem þú sérð hlutlægt hversu mörg mál þetta eru og hversu margir einstaklingar standa þarna að baki.“

Skúlptúrarnir eru búnir til á vinnustofum sem Eva og Anna Lára halda utan um og er öllum velkomið að mæta og setja sitt mark á verkefnið. „Við höfum fengið mikið af þolendum og fólki sem stendur þeim nærri og einnig fólk sem hefur áhuga á þessum málaflokki,“ útskýrir Anna.

Fjöldi málanna kom á óvart

Hugmyndin að verkefninu skaut upp kollinum þegar Eva, sem er lögfræðingur, var beðin um að líta yfir gögn í nauðgunarmáli sem hafði verið fellt niður. „Mér bregður svolítið við því í því máli sé ég mjög mikið af sönnunargögnum sem ég tel að hefði verið rétt að láta reyna á fyrir dómi.“

255 verk af 1.600 eru þegar tilbúin.

Í kjölfarið velti hún því fyrir sér hversu oft slíkt gæti átt við. „Mál eru yfirleitt felld niður með þeirri einföldu skýringu að það sé orð gegn orði,“ segir Eva. Það hafi ekki átt við í þessu máli og ákvað Eva því taka saman tölfræði um fjölda niðurfelldra mála. „Það er ekki til nákvæm tölfræði um þetta en eftir að ég sá hvað þetta eru mörg mál fann ég að ég þurfti að vekja athygli á því.“

Myndu ekki kæra án ástæðu

Anna bendir á að af þeim 130 til 170 konum sem leita árlega á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis leggi innan við helmingur fram kæru. „Svo er bara brotabrot af þeim málum sem er ákært þannig að á endanum eru einungis um tuttugu mál sem fara í ákæruferli.“ Á tímabilinu 2008 til 2009 voru 189 nauðgunarmál tilkynnt til lögreglu. Af þeim voru 158 mál felld niður.

„Það er svo oft reynt að halda að okkur, bæði fyrir dómi og í umræðunni, að konur séu að leggja fram kærur fyrir nauðgun út af hefnigirni eða öðrum álíka fjarstæðukenndum hlutum,“ segir Anna.

Þetta sé þó löng leið til að feta til að ná slíku fram. „Af því að, trúðu mér, það myndi engin manneskja leggja á sig þessa skoðun sem þarf að fara í gegnum til þess að geta kært án þess að hafa gilda ástæðu til,“ segir Anna, sem sjálf er þolandi kynferðisofbeldis

Áfall þegar málið var fellt niður

„Ég lenti í kynferðisofbeldi í Dublin á Írlandi og mín fyrstu viðbrögð voru að vilja bara komast undan þessu.“ Anna kveðst ekki hafa viljað leggja fram kæru heldur komast heim til Íslands sem allra fyrst. „Mér var byrlað og ég gat hvorki lýst mönnunum né staðháttum.

Hálfu ári eftir að ég varð fyrir árásinni fæ ég tölvupóst frá lögreglunni um að þar sem ekkert nýtt hefði komið fram og ekki hefði tekist að greina andlitin á mönnunum úr myndavélaeftirliti þá sé málið látið niður falla.“

Hún segir niðurstöðuna hafa verið ákveðið kjaftshögg þrátt fyrir að hún hafi ekki viljað kæra. „Þannig að ég get ekki ímyndað mér hvernig það er fyrir konu sem er búin að leggja það á sig að kæra að fá svo bara „sorrí, þetta er orð gegn orði“ sem svar.“

Alvarleg brot ætti að rannsaka

Eva tekur undir þetta. „Það eru svo mörg og þung skref sem liggja að kæru.“ Vinnubrögð lögreglunnar á Íslandi séu ekki þau sömu og á Írlandi þar sem það sé á ábyrgð þolanda að kæra.

„Auðvitað ætti það að vera þannig að um leið og þú hefur samband við lögreglu eða í ljós kemur að það hafi verið framið afbrot sé málið rannsakað, eins og stendur í íslenskum sakamálalögum,“ ítrekar Eva.

„Það er svo oft reynt að halda að okkur, bæði fyrir dómi og í umræðunni, að konur séu að leggja fram kærur fyrir nauðgun út af hefnigirni eða öðrum álíka fjarstæðukenndum hlutum,“ segir Anna.

„Það á að rannsaka og taka síðan ákvörðun um það síðar hvort mál verði fellt niður vegna algers skorts á sönnunarstöðu eða ekki.“

Raunveruleikinn sé hins vegar allt annar. „Það er svo miklu auðveldara fyrir okkur sem samfélag að trúa því að konur séu lygnar og hefnigjarnar heldur en að karlmennirnir í samfélaginu beiti í raunveruleikanum svona miklu og grófu ofbeldi.“

Valdeflandi sköpun

Með verkefninu vildu Eva og Anna færa valdið aftur í hendur þolenda. „Það er vald tekið af þér þegar mál er fellt niður. Það er svívirðilegt og yfirleitt gert með einni setningu.“ Á vinnustofunum geti fólk lagt mark sitt á málin með eigin höndum.

Anna kveðst sjálf finna fyrir heilun þegar hún mótar leirinn ásamt hinum þátttakendunum. „Það er svo gott að fá að gera eitthvað með þessa hræðilegu lífsreynslu mína og búa eitthvað til úr henni.“ Aðrir þolendur hafa tekið í sama streng og sagt það hafa verið valdeflandi að taka þátt í vinnusmiðjunni og skapa tákn fyrir niðurfellt mál.

Nú þegar hafa farið fram tíu vinnustofur og til stendur að halda þó nokkrar í viðbót, bæði í Reykjavík og á Akureyri. „Eini útgangspunkturinn sem við erum með er að verkin hafi skírskotun í manneskjuna.“ Fólk túlki það á ólíkan hátt og hafa margir búið til abstrakt form og skúlptúra.

„Það kom til dæmis ein um daginn sem vildi gera fönix vegna hugmyndafræðinnar á bak við hann,“ segir Eva. Fönixinn rísi úr öskunni sterkari en áður og tengist þannig mörgum brotaþolum. „Hún gerði það ótrúlega fallega og það var innilegt að ræða hvernig fólk túlkar upplifanir sínar í leirnum. Það eiga sér stað einhverjir töfrar í þessu ferli.“

Nú þegar eru um 255 verk tilbúin eða nærri 15 prósent af heildinni. Að sýningunni lokinni býðst þátttakendum að sækja verkin sín og þá mun fara fram gjörningur með verkin sem ekki verða sótt. „Það væri táknrænt að grafa líkt og málin eru grafin.“ Sýningin verðu opnuð þann 25. nóvember, í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem er upphafsdagur alþjóðlegs sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.