Lögreglu leikur grunur á að Sindri Þór Stefánsson, sem strauk frá fangelsinu að Sogni á aðfaranótt þriðjudags, sé kominn til Spánar. 

„Að sjálfsögðu gæti hann verið hvar sem er, en líkurnar á því eru litlar því vegabréfið hans var afturkallað í gær. Þannig kemst hann ekki út af Schengen-svæðinu á sínu eigin vegabréfi,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Fréttablaðið. 

Lögreglan leitar enn að leigubílstjóranum sem keyrði Sindra upp á flugvöll, þaðan sem hann tók síðan flug til Stokkhólms. Bíll leigubílstjórans er silfurlitaður Skoda Station, en að sögn Ólafs hefur leigubílstjórinn enn ekki gefið sig fram, þrátt fyrir að lögregla hafi haft samband við leigubílastöðvar. 

Flugið borgaði Sindri með sínu kreditkorti en pöntunin var gerð á nafni annars manns, er kemur fram í frétt RÚV um málið.

Fjórir yfirheyrðir, tveir með stöðu sakbornings

Lögregla er búin að yfirheyra fjóra í sambandi við strok Sindra, þar af hafa tveir haft stöðu sakbornings. Verjandi Sindra, Þorgils Þorgilsson var meðal þeirra sem hafa verið yfirheyrðir. Þorgils sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að um væri að ræða stöðluð vinnubrögð lögreglu og hann tengist honum ekki á annan hátt en að hann hafi verið verjandi hans. 

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var gæsluvarðhald yfir Sindra framlengt sama dag og hann flúði.

Sjá einnig: Verjandi strokufangans vitni í málinu

Lögregla sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hún væri í sambandi við lögregluna í Svíþjóð en hefði ekki fengið neinar upplýsingar þaðan um ferðir hans. Þá vissu þau ekki hvort hann hefði farið af flugvellinum í Stokkhólmi akandi, fljúgandi eða með lest. 

Sjá einnig: Lög­regla engu nær um ferðir stroku­­fangans