„Við erum að prófa nýjar aðferðir á ýmsum sviðum og í sumar erum við að fara af stað með hundaátak,“ segir Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri og umsjónarmaður Dýraþjónustu Reykjavíkur.

„Fyrir áramót voru hundaleiktæki keypt fyrir hundasvæðin í borginni og verður þeim komið fyrir í vor. Við ætlum einnig að fylgjast með og sinna hundasvæðunum betur og koma upp nýjum ruslatunnum með hundapokum,“ segir Þorkell.

Fyrir rúmlega ári var Hundaeftirlitið lagt niður og Dýraþjónusta Reykjavíkur stofnuð. Talsverðar breytingar áttu sér stað við stofnun þjónustunnar, meðal annars voru hundagjöld lækkuð og umsóknarferli auðveldað.

„Með því að lækka gjöldin vorum við að vonast til þess að nýskráningum hunda myndi fjölga, en frá því við tókum yfir hundaskrána í júní í fyrra hafa okkur borist um tvö hundruð nýskráningar,“ segir Þorkell.

Fjölgunin sé þó ekki eins mikil og þeir hefðu viljað.

„Í borginni eru um 2.300 hundar á skrá og á stórhöfuðborgarsvæðinu eru þeir í kring um 5.000. Það er þó erfitt að vita raunhæfa tölu. Ég held að allir átti sig á því, sem ganga um götur borgarinnar, að hundum hefur fjölgað mikið,“ segir Þorkell.

Að sögn Þorkels er nauðsynlegt í takti við þessa fjölgun að skilgreina betur og kortleggja þau svæði þar sem lausaganga hunda er leyfð. Mörg svæði hafi hingað til verið illa skilgreind, en með nýrri hundasamþykkt sé tekið á þeim vanda.

„Það var ákall frá hundaeigendum að fá skilgreiningu á svæðunum og einnig að fá leyfi fyrir tímabundna lausagöngu,“ segir Þorkell.

Tímabundin lausaganga gefur að sögn Þorkels möguleikann á því að hægt verði að skilgreina ákveðin svæði á ákveðnum tíma og leyfa lausagöngu þar.

„Þá gætu hópar sótt um að fá að hittast með hundana sína til dæmis á Klambratúni á einhverjum ákveðnum tíma, sem gefur hundaeigendum meiri sveigjanleika,“ bendir Þorkell á.

Þá standi til að gefa út kort þar sem lausagöngusvæði verði auglýst.

„Það er næst á dagskrá og mun hjálpa til við að koma í veg fyrir ýmis vafamál sem við stöndum ósjaldan frammi fyrir, eins og til dæmis hvort hundar megi vera á göngustígum á lausagöngusvæðum,“ segir Þorkell.

Kortin munu að mati Þorkels boða meira frelsi öllum til handa, bæði hundaeigendum sem og fólki sem stundi útivist í námunda við eða á slíkum svæðum.