Bæjarráð Árborgar hefur skorað á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita sér fyrir fullri viðurkenningu ríkisvaldsins á leikskólastiginu sem menntastofnun.

Í ályktun bæjarráðs í vikunni er mælt með því að ríkisvaldið skilgreini tekjustofn til sveitarfélaga til að standa straum af kostnaði við rekstur leikskóla frá lokum fæðingarorlofs.

Jafnframt þurfi að tryggja leiðir til að fjármagna þjónustu við fötluð börn á leikskólum og þau börn sem hafa annað móðurmál en íslensku, til dæmis með jöfnunarframlögum. Að sama skapi skorar bæjarráð á nýja ríkisstjórn Íslands að taka frumkvæði í þessu verkefni.

Í ályktuninni segir einnig að til þessa hafi sveitarfélög á eigin spýtur byggt upp og fjármagnað leikskólastigið, án þess að skilgreindir hafi verið tekjustofnar í verkefnið.