Mikil skortur er á leikskólaplássi á höfuðborgarsvæðinu. Margir foreldrar eru í miklum vandræðum og þar á meðal er Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir. Þórdís og eiginmaður hennar eiga tvo drengi og eru búsett í Vesturbænum.

Annar drengurinn hefur beðið mánuðum saman eftir leikskólaplássi.

„Í september klárast fæðingarorlofið okkar og síðan þá höfum við verið án dagvistunar, sem þýðir að annað okkar hefur þurft að vera tekjulaust,“ segir hún. „Til þess að fá inn einhverjar tekjur skráði ég mig í nám og var að skrifa meistararitgerð samhliða því að vera heima með drenginn.“

Þannig á Þórdís rétt á námslánum sem voru aðaltekjurnar á námstímanum. „Þá þarf ég að skrifa heila meistararitgerð og ná að skila henni til að fá þessi lán.“

Hún segir að þessu fyrirkomulagi fylgi gríðarlegt álag.

„Þetta var bara ótrúlega erfitt tímabil og ég er rosalega stolt af mér að hafa náð að komast í gegnum þetta, en þetta er ekki eitthvað sem maður gerir í langan tíma.“

Þórdís segist hafa vonast eftir plássi fyrir barnið á ungbarnaleikskóla á vegum HÍ, en ekkert hafi komið út úr þeirri bið. „Ég held að það séu bara breytingar, en það er verið að loka öðrum ungbarnaleikskólanum og stækka hinn, og út af þeim framkvæmdum er ekki verið að taka inn nein ný börn,“ segir hún.

Eldri strákurinn er á leikskóla í Vesturbæ. „Þetta er rosalega góður leikskóli og við viljum auðvitað hafa þá á sama leikskóla. En þar er verið að taka við börnum af leikskóla sem hefur verið lokað út af myglu,“ segir hún.

Þórdís segist ekki vera bjartsýn á að yngri sonurinn fái leikskólapláss í haust. „Það kemur í ljós á næstu vikum. En við höfum verið að hringja á leikskóla í nærumhverfi og annars staðar.“

Hún segir að staðan sé sú að börn í Vesturbænum geti þurft að bíða fram að þriggja ára aldri eftir leikskólaplássi.

„Mér finnst það alveg hræðileg staða og þetta er svo erfitt fyrir börnin sem þrá rútínu og félagsskap. Hann er svo tilbúinn að fara að leika við börn á sínum aldri, en situr þess í stað heima með foreldri sínu sem þarf síðan að rjúka og vinna kvöldvaktir eða nýta öll hlé til að sinna einhverskonar tekjuöflun. Af því að það er enginn fjárhagslegur stuðningur.“

Þórdís segir álagið mikið, ekki síst á sambandið.

„Við erum auðvitað undir gríðarlegu álagi og streitu. Það ert talað um að sambönd slitni oft á fyrstu tveimur æviárum barns. En þetta er auðvitað ekki að hjálpa þeirri stöðu. Við höfum þurft að styðja mikið við bakið á hvoru öðru.“