Skúli Helga­son, for­maður skóla og frí­stunda­ráðs Reykja­víkur­borgar, segir rangt að að­eins 200 milljónir króna hafi verið settar í að bæta starfs­um­hverfi leik­skóla­kennara. En það kom fram í sam­tali við Guð­rúnu Jónu Thoraren­sen, sam­ráðs­full­trúa leik­skóla­stjóra, á laugar­dag. Minnst hafi verið sett í mála­flokkinn fyrsta árið, 2018, en í alls fari tæp­lega 2,3 milljarðar til hans eða um 765 milljónir á hverju ári.

„Frá 2017 og 2018 hefur Reykja­víkur­borg gripið til ýmissa að­gerða til þess að styrkja leik­skóla­stigið í heild, svo sem starfsað­búnað og menntunar­tæki­færi,“ segir Skúli. Starfs­fólki hafi verið fjölgað á elstu deildum, fjölgað launuðum undir­búnings­tímum, sett inn fjár­magn til heilsu­eflingar og liðs­heildar­vinnu, fjár­magnað launuð leyfi og fag­nám­skeið, opnað ung­barna­deildir og tvö­faldað fjár­magn í fjöl­menningar­legt leik­skóla­starf. Einnig sé verið að byggja nýja leik­skóla og byggja við þá eldri til að auka rými til þess að brúa bilið fyrir fólk sem er að ljúka fæðingar­or­lofi.

„Þetta er eitt stærsta fjár­festingar­verk­efni borgarinnar á komandi árum og er fyrir utan þessa 2,3 milljarða,“ segir hann. Með þessu hafi bið­listum verið út­rýmt. „Skýringin á lausum plássum er því ekki mann­ekla eins og haldið hefur verið fram.“ Skúli segir ekki rétt að við­hald hafi skort enda hafi mikið verið gert. Við­hald hafi farið úr 185 milljónum árið 2016 í 695 milljónir nú.

Skúli tekur hins vegar undir á­hyggjur Guð­rúnar Jónu af fjölda leik­skóla­kennara. Hrun hafi orðið í náminu eftir að það var lengt í 5 ár. „Það sem við í borginni getum gert er að halda á­fram að bæta vinnu­að­stæðurnar og kjörin, en ríkið þarf að koma inn með hvata­að­gerðir.“