Áhrif faraldursins á skólabyrjun í haust liggja enn ekki fyrir. Samkvæmt svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins er mat á því hvort skólahald geti farið af stað með eðlilegum hætti ekki farið í formlegt ferli.

„Við þurfum að sjá þróunina lengra fram í tímann áður en við getum farið að kortleggja eitthvað,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Hegðun faraldursins hér á landi breytist oft með stuttum fyrirvara og ómögulegt sé að gera ráðstafanir svo langt fram í tímann.

Skúli nefnir þó að fylgst sé með stöðu mála á hverjum degi. Einnig hvað leikskólana varði en farið verður að opna þá flesta nú eftir sumarfrí. Skúli segir að áfram verði lögð áhersla á að halda skólum opnum en foreldrar verði upplýstir um stöðuna þegar nær opnun leikskóla og skólabyrjun dregur. Flestir skólar hefjast mánudaginn 23. ágúst.

Tæp 90 prósent landsmanna eru nú bólusett. Langflest börn á grunnskólaaldri eru þó óbólusett og hafa verið að smitast undanfarið. Yfir sextíu börn eru nú í eftirliti hjá Covid-göngudeild Landspítalans. ■