Leikskólar Hafnarfjarðar verða starfræktir allt sumarið frá og með sumrinu 2021. Tæp 80 prósent allra foreldra leikskólabarna í Hafnarfirði vilja velja í hvaða mánuði barnið þeirra tekur sumarfrí til að auka möguleika sína á því að vera í fríi á sama tíma og barnið samkvæmt niðurstöðum könnunar sem var gerð. Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti að afnema sumarlokunum á fundi sínum í dag 12. febrúar. Tilkynnt var um þetta í bókun fræðsluráðs.

„Ákvörðunin er tekin út frá hagsmunum barna. Við teljum að svo sé með þessari breytingu. Börnin geta þá verið í fríi á sama tíma og foreldrar þeirra og að börnin séu þá í leikskólanum á meðan foreldrarnir eru að sinna vinnu, enda ekki hægt að ganga út frá því að allir foreldrar séu í fríi í júlí,“ segir Kristín Thoroddsen, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, í samtali við Fréttablaðið.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð.“

Foreldrar munu geta valið um frí í júní, júlí eða ágúst, allt eftir þörfum hvers og eins. Taka þarf frí samfleytt í 4 vikur í senn eins og verið hefur. Unnið verður að þessum breytingum í góðu samstarfi og samtali við stjórnendur og starfsfólk leikskólanna og foreldrum leikskólabarna.  

Foreldrar hafa lengi kallað eftir því að afnema sumarlokunum á leikskólum enda mismunandi hvenær fólk kemst í sumarfrí.

„Við höfum fengið mjög góð viðbrögð og vonumst til þess að skólasamfélagið og starfsfólk leikskólanna taki þátt í að innleiða þessa breytingu með okkur,“ segir Kristín. Útfærslan verður formgerð á þessu ári.

„Við sjáum ekki fyrir okkur mikla kostnaðaraukningu en við sjáum fyrir okkur gríðarlega þjónustuaukningu.“

Barnvænt samfélag í Hafnarfirði

Með þessu vill Hafnarfjarðarbær stuðla að áframhaldandi vinnu við að gera bæinn að barnvænu samfélagi með því að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur. Fyrra fyrirkomulag hefur sett foreldra og börn í ákveðin vanda yfir sumartímann og foreldrar þurft að leita annara leiða til að tryggja vistun fyrir börn sín þegar leikskólinn lokar og foreldrar ekki í sumarfríi á sama tíma.

„Ákvörðunin er ekki einungis tekin út frá  niðurstöðu könnunarinnar heldur hafa rannsóknir bent  til þess að  tengslamyndun barna við foreldra sína á fyrstu æviárum þeirra skiptir miklu máli í uppvexti þeirra og þroska og teljum við því að með þessari ákvörðun séum við að taka stórt skref í barnvænu samfélagi sem við búum við hér í Hafnarfirði,“ segir í tilkynningu fræðsluráðs.