Hæstiréttur Íslands hefur tekið til greina umsókn fyrrverandi starfsmanns Reykjavíkurborgar um áfrýjunarleyfi.

Dómurinn gæti haft fordæmisgildi að mati Hæstaréttar en málið varðar kröfu starfmannsins um skaðabætur vegna líkamstjóns sem varð á vinnustaðaskemmtun.

Stefnandinn var leikskólakennari í Reykjavík og varð slysið á vinnudegi áður en átta tíma viðveruskyldu lauk en slysið varð í beinu framhaldi af því að dagskrá lauk á skipulagsdegi leikskólans en þá tók við skemmtidagskrá á vegum starfsmannafélagsins.

Deilt er um hvort slysið hafi verið í starfi eða utan starfs. Ekki er ágreiningur um afleiðingar slyssins og líkamstjón heldur er hann einskorðaður við það hvort bótaréttur og uppgjör vegna slyssins fari eftir reglum vegna slysa í starfi, eins og fyrrverandi starfsmaðurinn heldur fram, eða reglum vegna slysa utan starfs eins og Reykjavíkurborg heldur fram.

Héraðsdómur sýknaði Reykjavíkurborg í mars 2021 og Landsréttur staðfesti dóminn ári seinna, eða í mars á þessu ári. Einn af þremur dómurum í Landsrétti var ekki sammála niðurstöðu meirihluta og skilaði sératkvæði.

„Þvert á móti tel ég að fallast beri á kröfu áfrýjanda með þeim rökum sem hér greinit,“ skrifaði Ásmundur Helgason landsréttardómari í sératkvæði. „Ekki verður ráðið af skýrslum, sem gefnar voru fyrir héraðsdómi, að þar með hafi þeir starfsmenn, sem enn höfðu viðveruskyldu samkvæmt ráðningarsamningi, verið leystir undan skyldum sínum svo óyggjandi sé.“