Hafnarfjarðarbær ráðgerir að leikskólar bæjarfélagsins verði opnir allt árið um kring á næsta ári, en tillaga þess efnis var samþykkt í Fræðsluráði bæjarins á dögunum. Hingað til hafa leikskólarnir verið lokaðir allan júlímánuð en nú munu foreldrar geta valið hvenær börn þeirra taka sumarfrí. Slíkt fyrirkomulag tíðkast til dæmis í nágrannasveitarfélaginu Garðabæ.

Fyrirætlanirnar hafa fallið í grýttan jarðveg meðal starfsmanna leikskóla og áformin sögð illa undirbúin. Hafa fulltrúar leikskólastarfsmanna sagt að fyrirætlanirnar séu unnar án samráðs við starfsfólkið og að þær komi til með að bitna á faglegu starfi leikskólanna.

Hafa meðal annars stjórnir Félags stjórnenda leikskóla og Félags leikskólakennara hvatt til þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. Meðal annars með þeim rökum að hlutfall fagfólks í leikskólum hafi lækkað undanfarin ár og að við slíkar aðstæður sé óskynsamlegt að auka álagið á skólunum.

Á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í gær var lagt fram harðort bréf frá Lilju Kolbrúnu Steinþórsdóttur, leikskólastjóra Álfabergs, þar sem hún segist upplifa sig illa svikna af sveitarfélaginu sem hún hafi unnið hjá í 25 ár.

Segir hún ólíðandi ekki sé mark tekið á um 400 undirskriftum starfsmanna bæjarins sem hvöttu bæjaryfirvöld til þess að hætta við áætlanir sínar. „Ég bið ykkur um að halda því ekki á lofti að vinnan í kringum sumaropnun hafi verið unnin í sátt við starfsmenn leikskólanna, það er olía á eldinn,“ skrifar Lilja Kolbrún.

Bendir hún á að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og hafi haft upphaf og endi. Með sumaropnun tvístrast starfsfólk leikskólanna yfir sumarmánuðina og inn komi óreynt starfsfólk tímabundið. Það muni hafa neikvæð áhrif á faglegt starf skólanna og gera það að verkum að erfiðara verði að fá hæft fólk til starfa.