Leikskólagjöld í Árborg dekka í dag 13 prósent af kostnaði við rekstur leikskólanna. Fyrir tíu árum dekkuðu gjöldin 39 prósent. Ein helsta ástæða þess eru auknar kröfur sem ríkið hefur sett á leikskólastigið án þess að fjármagn til þess fylgi, eins og til grunnskólanna. Árborg hefur skorað á ríkið að tryggja fjármögnun leikskólastigsins og hafa fjölmörg önnur sveitarfélög tekið undir þessa áskorun.

Ein mesta íbúafjölgun á landinu

Íbúafjölgun í Árborg hefur verið ein sú mesta á landinu, einkum hjá ungu fólki. Við þessu þarf að bregðast og í vor var sjötti leikskólinn, Goðheimar, opnaður. Helgi S. Haraldsson, forseti bæjarstjórnar, segir að með opnuninni nái bærinn að uppfylla reglur um að 18 mánaða börn komist inn.

„Undanfarin ár hafa verið sett lög sem auka kröfurnar og þar af leiðandi kostnaðinn fyrir sveitarfélögin,“ segir Helgi. „Í þeim lögum var leikskólinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Við erum að benda á að fyrst svo er þá hljóti hluti af skatttekjum að fylgja með rekstrinum líkt og grunnskólum.“

Hávær krafa um niðurfellingu

Meðal þeirra krafna eru þjónusta við fötluð börn og þau börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Þá hefur komið upp hávær umræða um að leikskólagjöld verði felld niður, meðal annars var það kosningaloforð Vinstri grænna í Reykjavík. Röksemdir fyrir því að leikskóli skuli vera frír er einmitt að hann sé fyrsta skólastigið.

Samkvæmt greiningu Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2020 var meðalkostnaður við átta tíma vistun hvers leikskólabarns 2,75 milljónir króna á ári. Þá kosta byggingar nýrra leikskóla gjarnan nokkur hundruð milljónir króna.

Helgi minnist líka á þann tíma sem líður frá lokum fæðingarorlofs þar til börn komast inn á leikskóla, oft hálft ár, sem geti verið kvöl og pína fyrir foreldra. Ekki eru alls staðar til staðar dagforeldrar til þess að brúa bilið.

„Krafa foreldra er að leikskólar taki strax við af fæðingarorlofinu. Til að leysa þetta er annað hvort hægt að lengja fæðingarorlofið enn þá meira eða að ríkið láti tekjustofn fylgja til sveitarfélaganna,“ segir Helgi.

Ekki vongóður að málið breytist til batnaðar

Ný ríkisstjórn er í pípunum og eftir að hún verður tilkynnt hefst fjárlagagerð. Helgi segist ekki vongóður um að málið breytist til batnaðar þegar þessi fjárlög líta dagsins ljós. En mikilvægt sé að opna samtalið og ná eyrum stjórnvalda.

Samband Íslenskra sveitarfélaga hefur þegar tekið bókun Árborgar fyrir og hyggst vinna málið áfram.

„Ég vona að samtalið verði brátt tekið við ríkisvaldið. Ef ríkisvaldið einfaldlega hafnar því að tekjustofnar fylgi leikskólanum, þá hlýtur það að sýna fram á einhver rök og þá vitum við hvar við stöndum,“ segir Helgi.