Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning frá íbúa á Kársnesinu í Kópavogi um miðjan dag í gær, um að eitthvað athugavert væri í gangi við Kársnesbryggju.

Þegar lögregla bar að kom í ljós að þarna voru á ferð leiklistarnemendur við Menntaskólann í Hamrahlíð, sem voru að taka upp ofbeldisatriði fyrir stuttmynd.

Nemendunum brá heldur í brún þegar þeir heyrðu sírenuvæl og sáu lögreglubíl koma á fleygiferð að bryggjunni.

Lögreglan ræddi við leikara sem voru í óða önn að taka upp ofbeldisfullan skets.
Aðsend mynd.

Ólafur Guðmundsson, leikari og leiklistarkennari segir í samtali við Fréttablaðið að hópurinn hafi verið að taka upp atriði fyrir stuttmynd þar sem maður er kýldur og að átök eigi sér stað á milli leikaranna en meðal leikmuna var gervibyssa.

„Við lékum greinilega svo vel að það hefur einhver haldið að þetta væri í alvörunni," segir Ólafur og hlær.

Hann segir að lögregla hafi fljótt séð að þarna væru saklausar tökur í gangi og eftir stutt spjall hafi lögregla yfirgefið vettvang.

„Nemendurnir fengu smá sjokk fyrst þegar þeir sáu sírenurnar en þótti þetta svo bara spennandi, þetta voru alls sjö nemendur sem eru í leiklistaráfanga í MH," segir Ólafur að lokum.

Ólafur Guðmundsson, leikari og framhaldsskólakennari.