Sviðslistastofnanir og menningarhús Íslands fá ekki undanþágu frá eins metra fjarlægðarreglu og hefur því öllum leiksýningum og tónleikum þeirra verið aflýst fram að áramótum.

Undantekningin frá þessu eru tónleikar í Hörpu í dag Þorláksmessu og ferðamannaviðburðir yfir hátíðirnar enda húsið opið almenningi. Uppselt er á nær alla hátíðarviðburði sem geta nú ekki farið fram.

Stofnanirnar segja of skamman tíma til stefnu að endurraða gestum og ekki komi til greina að velja og hafna gestum. Miðasölur munu hafa samband við miðahafa og bjóða þeim nýjar dagsetningar.

Þorláksmessutónleikar í Hörpu fara fram þrátt fyrir takmarkanir.
Mynd/Eyþór Árnason

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtök atvinnuveitenda í sviðslistum, Savíst, sem lýsa yfir vonbrigðum og harmi að þurfa að taka þessa ákvörðun en hún sé því miður óhjákvæmileg í ljósi erfiðra aðstæðna.

„Frá því faraldurinn skall á eru engin dæmi þess að smit hafi orðið á milli gesta á sitjandi menningarviðburði á Íslandi,“ segir í tilkynningu SAVÍST en að samtökunum koma Borgarleikhúsið, Tjarnarbíó, Þjóðleikhúsið, RÚV, MAK, Íslenski dansflokkurinn, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska Óperan og Harpa.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ákvað í gær að veita veitingastöðum undanþágu frá fjöldatakmörkum. Sú ákvörðun hefur verið gagnrýnd af bæði Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

„Það hryggir starfsfólk þessara menningarhúsa mjög að geta ekki mætt gestum sínum á fyrirhuguðum viðburðum enda er bæði hátíðlegt og gefandi að njóta leiksýninga og tónleika yfir hátíðarnar,“ segir Savíst.