Gagnrýni leikkonunnar Aldísar Amah Hamilton um einsleitni leikaravals Borgar- og Þjóðleikhússins í ár hefur líklega ekki farið fram hjá neinum. Hún vakti athygli á því í gær að forsíðumynd kynningarbækling Þjóðleikhússins sýndi ekki öll þau andlit sem nauðsynleg væru til að endurspegla raunverulegt samfélag Íslands, en á téðri mynd má sjá fjörutíu hvíta leikara.
„Ég ætti erfitt með að fara út úr húsi og finna aðstæður þar sem svo einsleitur hópur kæmi saman, nema í leikhúsinu,“ skrifaði Aldís á samfélagsmiðlum.
Ábyrgð leikhússins
„Þessi mynd sem um ræðir er á forsíðu blaðsins en í blaðinu eru tvær opnur til viðbótar og dreifast listamenn hússins á þessar opnur.“ segir Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri í samtali við Fréttablaðið.
„Mér finnst þetta mjög fínt innlegg hjá Aldísi og þörf umræða,“ bætir Magnús við. Nauðsynlegt sé að ræða reglulega hvaða sögur eru sagðar í leikhúsinu og hver stígi þar á svið.
„Við viljum hér, eins og í öðrum leikhúsum, bjóða upp á fjölbreytta flóru öflugra leikara og sú hefur verið raunin í Þjóðleikhúsinu. Síðustu ár hafa verið hér leikarar af ólíkum uppruna og eru einnig í vetur á öllum sviðum hússins,“ bendir Magnús á. „Ég er hins vegar sammála Aldísi um að við þurfum að gera betur. Það er okkar ábyrgð.“

Borgarleikhúsið aftarlega á merinni
Haldin var fundur í Borgarleikhúsinu í morgun þar sem ummæli Aldísar voru tekin til fyrir og segir Brynhildur Guðjónsdóttir, Borgarleikhússtjóri, ábendingu Aldísar vera réttmæta og þarfa. Þá hyggst leikhúsið taka ábendinguna til sín.
„Við erum aftarlega á merinni í þessum efnum en ætlum sannarlega að gera betur. Við erum allskonar, allar raddir eiga að hljóma og einsleitni er hættuleg,“ skrifar Borgarleikhússtjóri á Facebook.
Fjölbreytnin langhlaup
Magnús tekur í sama streng. „Við sem erum nýkomin hér að sem stjórnendur í Þjóðleikhúsinu erum sannarlega meðvituð um að sögurnar sem við segjum þurfa að vera fjölbreyttar. Við munum klárlega horfa til þess að halda áfram að endurspegla fjölbreytni og munum vonandi auka hlutfallið hratt og vel, en þetta er auðvitað líka langhlaup.“
Þjóðleikhúsið vinnur nú að því að auka fjölbreytileika innan hússins. Í þeim tilgangi var sett á laggirnar þróunarmiðstöð fyrir ný íslensk verk sem gengur undir nafninu Loftið. Þrír hópar þróa verk í miðstöðinni í vetur.
„Það vill reyndar svo til að í öllum þremur verkunum er fólk af blönduðum uppruna að vinna þessi verk fyrir okkur og við erum auðvitað bara spennt að fylgja því eftir og vonum rati alla leið á svið.“

Innflytjendur ósýnilegir á sviði
Aldís vekur athygli á því að einn sjötti Íslendinga sé fólk af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda. Það sjáist þó ekki á fjölum leikhúsanna.
„Valdhafar þurfa að leggja á sig þá auka vinnu að ganga úr skugga um að hópurinn sem þú ert með sé raunveruleg speglun á samfélaginu. Þegar þú tilheyrir meirihluta innan þjóðfélagsins þá er skiljanlega erfitt að gera sér grein fyrir því að eitthvað vantar, en það er algjörlega í þeirra höndum að gefa öllum tækifæri á að spegla sig í listinni,“ sagði Aldís í samtali við Fréttablaðið.
Ástæðulaus ótti
Aldís viðurkenndi að það væri erfitt fyrir marga listamenn af blönduðum uppruna að tjá sig um skort á fjölbreytileika í leikaravali leikhúsanna. Lítið samfélag geri það að verkum að óttinn við slæm viðbrögð og útskúfun sé alltaf til staðar.
Magnús telur þann ótta vera ástæðulausan. „Við viljum svo sannarlega leggja við hlustir og taka þátt í samtalinu. Ég fanga þessari umræðu og tel hana leiða til góðs.“