Bandaríski leikarinn Ron Leibman, sem er þekktur fyrir að hafa leikið pabba Rachel Green í sjónvarsþáttunum Friends, er látinn, 82 ára að aldri. Leibman var bæði Emmy og Tony verðlaunahafi en ferill hans spannaði rúmlega 60 ár, bæði á sviði og sjónvarpi.

Hann fæddist 11. október árið 1937 í New York og lést í gær úr lungnabólgu. Robert Atterman, umboðsmaður hans, staðfesti þetta.

Leibman lék eftirminnilega hlutverk lögfræðingsins Roy Cohn í hinu margverðlaunaða leikriti Angels in America eftir Tony Kushner, sem er talið eitt besta leikrit sem komið hefur frá Bandaríkjunum síðustu áratugi.

Hann lærði leiklist á sjötta áratugnum hjá Lee Strasberg í hinum goðsagnakennda leiklistarskóla Actors Studio í New York en þar var hin svokallaða „method“ leiklistartækni þróuð.

Flestir þekkja hann þó fyrir að leika Dr. Leonard Green, föður Rachel Green í friends. Hann vann Emmy verðlaun árið 1979 fyrir að túlka titilhlutverkið í þáttunum Kaz.

Fréttablaðið/Getty images