Bandaríski leikarinn Peter Fonda er látinn, 79 ára gamall. Hann er þekktastur fyrir að vera meðhöfundur, framleiðandi og aðalleikari kvikmyndarinnar Easy Rider frá árinu 1969. Þetta kemur fram á vef BBC.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Fonda kom fram að hann hefði látist friðsamlega á heimili sínu í Los Angeles. Banamein hans var lungnakrabbamein.

Eldri systir hans, Jane Fonda, bætti við að hún væri mjög sorgmædd yfir andláti litla bróður síns, sem hún sagði að hefði verið góðhjartaður og kjaftarinn í fjölskyldunni.

Hún sagði að þau hefðu átt góðar stundir saman á síðustu dögum og að hann hafi dáið hlæjandi.

Faðir Peter Fonda var leikarinn Henry Fonda og dóttir hans, Bridget Fonda, er líka leikkona.

Kvikmyndin Easy Rider er talin klassísk og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta frumsamda handritið á sínum tíma. Þar lék Fonda mótorhjólakappa, hlutverk sem hann átti eftir að endurtaka nokkrum sinnum.

Fonda fékk aðra Óskarsverðlaunatilnefningu árið 1997 fyrir besta leik í aðalhutverki fyrir kvikmyndina Ulee‘s Gold.

Seinna á ævinni fór Fonda að vinna að umhverfisvernd og hann var meðframleiðandi kvikmyndarinnar The Big Fix, sem fjallaði um sprenginguna í olíuborpallinum Deepwater Horizon.