„Þó við komumst í gegnum daginn þá er fólk að leika sér með þetta fjöregg þjóðarinnar sem ferðaþjónustan er. Það er grafalvarlegt.“ Þetta segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels og formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, um verkfallið á morgun.

Hreingerningafólk er á leið í verkfall á morgun eftir að Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun hefði verið lögleg. Samtök atvinnulífsins hafði kært atkvæðagreiðsluna um verkfallsboðun. Eins dags verkfall hefst því á morgun. Verkfallið tekur til allra þrifa, hreingerninga og frágangs á herbergjum og annarri gistiaðstöðu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.

Kristófer segir að á síðustu fimm árum hafi laun Eflingarfólks hækkað um 75 prósent í evrum talið. Ísland sé nú orðinn dýrasti áfangastaður í heimi.

Nánar verður fjallað um verkfallið á morgun og áhrif þess á hóteleigendur í Fréttablaðinu á morgun.