Verð á leiguhúsnæði á Íslandi hefur hækkað um 100 prósent á síðustu tíu árum á sama tíma og leiguverð hefur hækkað um rétt ríflega fimmtán prósent að meðaltali í öðrum löndum Evrópu.

Þetta kemur fram í samantekt Samtaka leigjenda á Íslandi, en forvígismenn þeirra segja neyðarástand ríkja á leigjendamarkaði – og ef fram haldi sem horfi í húsnæðiseklunni hér á landi eigi lífskjör leigjenda aðeins eftir að versna.

„Ísland sker sig algerlega úr hvað leiguverð varðar, enda er hér rekin hrein og klár okurstefna af ósvífnasta tagi,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður samtakanna, en hann segir það vera þvert á húsnæðismenningu annarra landa að láta hagnaðardrifin fasteignafélög keyra markaðsvirði húseigna upp úr öllu valdi, eins og tíðkist á Íslandi.

Hann segir ástandið bitna á þeim sem síst skyldi, enda séu leigjendur á Íslandi almennt í efnaminnsta hópi landsmanna.

„Og þeir eiga enga undankomuleið. Leigusalinn hefur öll völd og getur hækkað leiguverðið eins og honum sýnist, allt þar til leigjandinn hættir að anda,“ segir Guðmundur Hrafn.

Ísland sker sig mjög úr öðrum löndum Evrópu hvað þroskaðan leigumarkað varðar. Víðast hvar í Evrópu er stór hluti húsnæðis til leigu, allt upp undir 80 prósent eins og á við um Vín, höfuðborg Austurríkis, en annars staðar í landinu er um helmingur húsnæðis á leigumarkaði.

Í Frakklandi eru sveitarfélög sektuð ef 25 prósent af húsnæði þeirra eru ekki á leigumarkaði.

Guðmundur Hrafn bendir á að í Svíþjóð sé leigjendamarkaðurinn til mikillar fyrirmyndar. Ekki einasta sé hlutfall leiguhúsnæðis þar hátt í öllum bæjarfélögum heldur reki menn þar virkt eftirlit með réttindum leigjenda og þak á leiguverði sé virt í hvívetna.

Raunar sé verðþak á leigu við lýði í flestum löndum Evrópu, nema á Íslandi, en Svíar séu hér sér á báti.

„Sænsku leigjendasamtökin eru fjölmennustu félagasamtök landsins og eru samningsaðili hvað leiguverðið varðar,“ segir Guðmundur Hrafn.

Að sögn Guðmundar Hrafns ríkir villta vestrið á íslenskum leigumarkaði. Raunalegt sé að horfa upp á hvað stjórnvöld séu sinnulaus í þessum málaflokki.

„Það átti að bæta réttindi leigjenda í Lífskjarasamningi stjórnvalda 2019 en sú viðleitni dagaði uppi í samráðsgátt þeirra. Það er dæmigert,“ segir Guðmundur Hrafn.

Engri annarri þjóð dettur til hugar að sögn Guðmundar Hrafns að haga sér með álíka hætti og Íslendingar hvað þessa grunnþörf varðar.

„Meira að segja Margaret That­cher tókst ekki að eyðileggja leigumarkaðinn í Bretlandi, þótt viljinn til þess hafi verið mikill. Þar í landi eru enn þá um 20 prósent húsnæðis á leigumarkaði,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson