Leigusamningurinn um lóðina Sólvelli var undirritaður í júlí 2016 af Haraldi Sverrissyni, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, og Hollendingnum Henri Middeldorp stjórnarformanni MCPB á þeim tíma. Leigusamningurinn var til 99 ára og var með kauprétt að landinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Fram kom að Middeldorp hygðist, ásamt innlendum og erlendum aðilum, fjárfesta í einkareknum spítala og hóteli fyrir rúma 50 milljarða króna. Átti spítalinn fyrst og fremst að þjónusta erlenda sjúklinga og vera með 150 herbergjum. Hótelið átti að vera 250 herbergja og var ráðgert að verkefnið myndi skapa um 1.000 ný störf.
Málið varð fljótt afar umdeilt og var mikið fjallað um það í fjölmiðlum. Meðal annars skrifaði Kári Stefánsson grein þar sem hann fullyrti að „útlendingaspítalinn“ myndi ganga af íslensku heilbrigðiskerfi dauðu. Segja má að tvær ástæður hafi verið fyrir því að fregnir af verkefninu féllu í grýttan jarðveg. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er viðkvæmt mál hér á landi en ekki síður var Middeldorp dularfullur í meira lagi.
Fljótlega fóru að berast fregnir af því að hann hefði sett sig í samband við fjölda aðila hér á landi, kynnt fyrir þeim verkefni og sagst vera með fjársterka aðila á bak við sig. Engin slík áform höfðu þó raungerst og var hann meðal annars sakaður um að hafa blekkt hugsanlega meðfjárfesta í öðrum verkefnum.
Verkefnið í Mosfellbæ átti að vera fjármagnað með láni frá félaginu Burbanks Capital í Hollandi sem var sagt vera fjármagnað af fjársterkum aðilum. Hollendingurinn varðist þó allra fregna um hverjir þessir aðilar væru. Á heimasíðu fyrirtækisins var meðal annars fullyrt að það væri í samvinnu við kísilframleiðandann Silicor Materials.
Aðeins rúmum tveimur mánuðum eftir undirskrift lóðarleigusamningsins fór að hrikta í stoðum verkefnisins. Íslendingar í stjórn MCPB ehf, sem tengdust VHE-vélaverksmiðju Hjalta Einarssonar ehf. og áttu að eiga tveggja prósenta hlut, drógu sig úr verkefninu. Verkefnið fjaraði því fljótt út og ekkert hefur spurst til Middeldorp síðan.
Nokkru síðar virðist athafnamaðurinn Sturla Sighvatsson hafa eygt tækifæri í uppbyggingu á lóðinni. Hann eignaðist MCPB ehf. í gegnum tvö einkahlutfélög og breytti nafni fyrirtækisins í Sólvellir – Heilsuklasi ehf. Lítið hefur þó komið fram um byggingaráform á lóðinni enda hefur Sturla verið upptekinn við að slökkva elda í hinum ýmsu verkefnum sem hann hefur á sinni könnu og Fréttablaðið hefur fjallað um.
Þau bál snúa meðal annars að hlut hans í leigurisanum Heimavöllum sem hann missti frá sér, byggingu fjölbýlishúss í Gerplustræti í Mosfellsbæ sem fór úr böndunum og fjárfestingu í fjölbýlishúsi á Ásbrú sem hefur ítrekað verið auglýst á nauðungarsölu.
Í leigusamningi milli Mosfellbæjar og MCPB ehf., síðar Sólvalla – Heilsuklasa ehf, var ákvæði sem heimilaði sveitarfélaginu að fella niður samninginn ef engar framkvæmdir væru hafnar innan tveggja ára frá undirskrift hans. Um þessar mundir eru um þrjú og hálft ár frá undirrituninni og vísað er í þetta ákvæði í þeirri ákvörðun bæjarráðs að freista þess að fella niður samninginn.
Sturla Sighvatsson kaus að tjá sig ekki um málið þegar eftir því var leitað.