Sex lögreglumenn gáfu skýrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar aðalmeðferð í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar var framhaldið.

Ásamt lögreglumönnunum gaf leigusali skýrslu fyrir dómi en hann leigði einum sakborninga málsins húsnæði í Hafnarfirði sem notað var til geymslu á trjádrumbunum við komuna til landsins. Í húsnæðinu voru hin ætluðu fíkniefni fjarlægð úr trjádrumbunum sem komu til landsins frá Brasilíu. Í drumbunum voru þó aðeins gerviefni sem hollenska lögreglan hafði komið fyrir í stað alvöru efnanna.

Athygli vakti að aðeins þrír sakborninganna voru mættir í héraðsdóm í morgun en einn þeirra var fjarverandi vegna veikinda.

Framhaldið í febrúar

Aðalmeðferðin hófst á fimmtudaginn var og var framhaldið í dag. Réttarhöldin munu svo halda áfram 9. febrúar og 10. febrúar næstkomandi en þá mun skýrslutökum ljúka ásamt munnlegum málflutningi.

Enn liggur matsgerð sérfræðings á vegum Háskóla Íslands um þyngd og styrkleika fíkniefnanna ekki fyrir og það sama á við um þýðingar á ýmsum skjölum tengdum málinu. Líklegt þykir að matsgerðin muni liggja fyrir fljótlega.

Í febrúar verða munu erlend vitni gefa skýrslu í málinu, mögulegt þykir að innflutningsaðilar í Brasilíu verði kallaðir fyrir dóm í gegnum Teams. Hollenska lögreglan og tollurinn munu einnig gefa skýrslu ásamt fleiri innlendum opinberum starfsmönnum.

Óheimilt að greina frá skýrslutökum

Dómari tjáði fjölmiðlum á fimmtudag að óheimilt væri að greina frá aðalmeðferð málsins fyrr en öllum skýrslu- og vitnaleiðslum væri lokið. Sakborningarnir málsins gáfu allir skýrslur þá en þeir eru fjórir:

  • Páll Jónsson, timburinnflytjandi á sjötugsaldri. Samkvæmt ákæru málsins var fyrirtæki í hans eigu Hús og Harðviður notað í tengslum við peningaþvætti.
  • Jóhannes Páll Durr, 28 ára og er meðal annars þekktur fyrir að hafa verið liðsstjóri íslenskra landsliða í rafíþróttum.
  • Daði Björnsson, 30 ára. Hann er einnig ákærður fyrir kannabisræktun á heimili sínu og vörslu maríjúana.
  • Birgir Halldórsson, 27 ára.

Enginn þeirra á að baki langan sakaferil en þeir eru ákærðir fyrir innflutning á tæpum hundrað kílóum af kókaíni auk peningaþvættis upp á samtals tæpar 63 milljónir króna. Mennirnir voru handteknir 5. ágúst síðastliðinn og var málið yfir þeim þingfest í nóvember. Þar neituðu þeir allir ýmist sök eða neituðu að taka afstöðu til málsins.