Formaður Leigjendasamtakanna segir að fólk sem gert er að taka á sig miklar húsaleiguhækkanir hafi þá leið að greiða ekki samkvæmt hækkaðri leigu heldur leggi gömlu upphæðina á biðreikning.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, hvetur leigjendur hjá Ölmu til að íhuga að hætta að greiða húsaleigu til félagsins. Þá hvetur hann almenning til að sniðganga allar vörur frá Langasjó, félaginu sem á Ölmu.
„Leigjendur hafa ýmis ráð og það er þekkt úrræði að hætta að borga leigu ef reynt er að okra á þeim,“ segir Guðmundur Hrafn.
„Á Spáni er algengt ef mikið ber á milli eftir hækkanir að leigjendur greiði leigu án hækkunar inn á biðreikning lögfræðinga í stað þess að hún renni beint til leigusala. Þetta gæti verið góð leið hér,“ segir Guðmundur Hrafn sem telur vel koma til greina að leigjendur hjá Ölmu beiti slíkum aðgerðum.
Vafamál er hvort skilmálar hjá hagnaðardrifnum leigufélögum eru virtir. Óljóst virðist við hvað vísitöluhækkanir eiga að miðast eftir því hvort um langtíma- eða skammtímaleigu er að ræða.
Ef íbúðafélagið Alma hefur hækkað leigu um 30 prósent á tímum þar sem verðbólga er undir 10 prósentum kallar það á athugun, að sögn Más Wolfgangs Mixa, hagfræðings og lektors við Háskóla Íslands.

Már Mixa segir að hækkun á húsaleigu komi ekki á óvart vegna mikilla verðhækkana á fasteignum undangengin misseri. Í rannsókn sem hann gerði á stöðu leigjenda í fyrra kom fram að uppbygging leigumarkaðarins síðastliðin ár hefur leitt til aðstæðna hjá leigjendum sem einkennast af óöryggi. Már skoðaði meðal annars staðlaða leigusamninga hjá tveimur atkvæðamiklum einkareknum leigufélögum, Ölmu og Heimstaden, sem áður hét Heimavellir. Í samningunum, sem voru langtímasamningar, segir að leiguverð breytist í takt við neysluvísitölu.
„Ef fréttirnar af Ölmu eru það sem koma skal eru um blikur á lofti,“ segir Már Mixa. „Ein spurningin er hvort Alma lítur á endurnýjun samnings sem ígildi nýs samnings.“
Már telur að ef rétt reynist að staða fólks á leigumarkaði hjá hagnaðardrifnum leigufélögum sé eins viðkvæm hvað varðar skammtímasamninga og fram hafi komið í fréttum þurfi áhætta sem kunni að leynast að koma fram.

Auður Jónsdóttir rithöfundur sagði á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að stærstu mistök sem hún hefði gert um dagana væru að selja eigið húsnæði fyrir skemmstu. Staðan á markaði í dag væri eins og villta vestrið. Dæmi væru um að leigusalar krefjist fyrirframgreiðslu sem næmi hálfri milljón króna.
Auður er sjálf leigjandi. Hún segir öll spil á hendi fasteignaeigenda. Sumir leigusalar líti á húsnæði sem hlutabréf. Helsta markmiðið sé að græða eins mikið fé og mögulegt er sem spyrji siðferðislegra spurninga, ekki síst þegar um ræði börn í leiguhúsnæði.
Daði Már Kristófersson, hagfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að í Covid hafi orðið sprenging. Fólk hafi keypt fasteignir í fjárfestingarskyni sem aldrei fyrr og það skýri að hluta ástandið. Stjórnvöld þurfi nú að skoða aukna félagsmöguleika og reyna um leið að jafna húsnæðismarkaðinn til lengri tíma.
Staðlaðir leigusamningar á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins, sem hægt er að nálgast í gegnum heimasíðu Ölmu, skilgreina ekki með skýrum hætti hvernig leiguverð skuli breytast á leigutíma. Þar segir einfaldlega: „Leiguverð skal breytast samkvæmt síðara samkomulagi.“