For­maður Leigj­enda­sam­takanna segir að fólk sem gert er að taka á sig miklar húsa­leigu­hækkanir hafi þá leið að greiða ekki sam­kvæmt hækkaðri leigu heldur leggi gömlu upp­hæðina á bið­reikning.

Guð­mundur Hrafn Arn­gríms­son, for­maður Leigj­enda­sam­takanna, hvetur leigj­endur hjá Ölmu til að í­huga að hætta að greiða húsa­leigu til fé­lagsins. Þá hvetur hann al­menning til að snið­ganga allar vörur frá Langa­sjó, fé­laginu sem á Ölmu.

„Leigj­endur hafa ýmis ráð og það er þekkt úr­ræði að hætta að borga leigu ef reynt er að okra á þeim,“ segir Guð­mundur Hrafn.

„Á Spáni er al­gengt ef mikið ber á milli eftir hækkanir að leigj­endur greiði leigu án hækkunar inn á bið­reikning lög­fræðinga í stað þess að hún renni beint til leigu­sala. Þetta gæti verið góð leið hér,“ segir Guð­mundur Hrafn sem telur vel koma til greina að leigj­endur hjá Ölmu beiti slíkum að­gerðum.

Vafa­mál er hvort skil­málar hjá hagnaðar­drifnum leigu­fé­lögum eru virtir. Ó­ljóst virðist við hvað vísi­tölu­hækkanir eiga að miðast eftir því hvort um lang­tíma- eða skamm­tíma­leigu er að ræða.

Ef í­búða­fé­lagið Alma hefur hækkað leigu um 30 prósent á tímum þar sem verð­bólga er undir 10 prósentum kallar það á at­hugun, að sögn Más Wolf­gangs Mixa, hag­fræðings og lektors við Há­skóla Ís­lands.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigj­enda­sam­takanna.
Mynd/aðsend

Már Mixa segir að hækkun á húsa­leigu komi ekki á ó­vart vegna mikilla verð­hækkana á fast­eignum undan­gengin misseri. Í rann­sókn sem hann gerði á stöðu leigj­enda í fyrra kom fram að upp­bygging leigu­markaðarins síðast­liðin ár hefur leitt til að­stæðna hjá leigj­endum sem ein­kennast af ó­öryggi. Már skoðaði meðal annars staðlaða leigu­samninga hjá tveimur at­kvæða­miklum einka­reknum leigu­fé­lögum, Ölmu og Heimsta­den, sem áður hét Heima­vellir. Í samningunum, sem voru lang­tíma­samningar, segir að leigu­verð breytist í takt við neyslu­vísi­tölu.

„Ef fréttirnar af Ölmu eru það sem koma skal eru um blikur á lofti,“ segir Már Mixa. „Ein spurningin er hvort Alma lítur á endur­nýjun samnings sem í­gildi nýs samnings.“

Már telur að ef rétt reynist að staða fólks á leigu­markaði hjá hagnaðar­drifnum leigu­fé­lögum sé eins við­kvæm hvað varðar skamm­tíma­samninga og fram hafi komið í fréttum þurfi á­hætta sem kunni að leynast að koma fram.

Auður Jónsdóttir rithöfundur.
Fréttablaðið/ValgarðurGíslason

Auður Jóns­dóttir rit­höfundur sagði á Frétta­vaktinni á Hring­braut í gær að stærstu mis­tök sem hún hefði gert um dagana væru að selja eigið hús­næði fyrir skemmstu. Staðan á markaði í dag væri eins og villta vestrið. Dæmi væru um að leigu­salar krefjist fyrir­fram­greiðslu sem næmi hálfri milljón króna.

Auður er sjálf leigjandi. Hún segir öll spil á hendi fast­eigna­eig­enda. Sumir leigu­salar líti á hús­næði sem hluta­bréf. Helsta mark­miðið sé að græða eins mikið fé og mögu­legt er sem spyrji sið­ferðis­legra spurninga, ekki síst þegar um ræði börn í leigu­hús­næði.

Daði Már Kristófers­son, hag­fræðingur og prófessor við Há­skóla Ís­lands, segir að í Co­vid hafi orðið sprenging. Fólk hafi keypt fast­eignir í fjár­festingar­skyni sem aldrei fyrr og það skýri að hluta á­standið. Stjórn­völd þurfi nú að skoða aukna fé­lags­mögu­leika og reyna um leið að jafna hús­næðis­markaðinn til lengri tíma.

Staðlaðir leigu­samningar á heima­síðu fé­lags­mála­ráðu­neytisins, sem hægt er að nálgast í gegnum heima­síðu Ölmu, skil­greina ekki með skýrum hætti hvernig leigu­verð skuli breytast á leigu­tíma. Þar segir ein­fald­lega: „Leigu­verð skal breytast sam­kvæmt síðara sam­komu­lagi.“