Íþróttafélagið Grótta segir leigjanda veislusalar í íþróttamiðstöðinni sem hélt samkvæmi fyrir menntskælinga í gær hafa brotið skilmála leigusamnings.

Viðkomandi hafi tjáð félaginu að samkvæmið væri fyrir sig og vini sína sem öll væru eldri en tvítug.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út laust eftir miðnætti í nótt vegna samkvæmisins. Í dagbók lögreglu var greint frá því að mikill fjöldi ungs fólks undir tvítugu hafi verið að skemmta sér og töluverð ölvun hafi verið á staðnum.

Samkvæmið hafi verið leyst upp sökum ungs aldurs fjölda gesta en þeir eru sagðir hafa verið á aldrinum 16 til 17 ára.

„Við hjá Gróttu leggjum okkur fram við að leigja aldrei út salinn til framhaldsskólanema eða annarra ungmenna sem ætla sér að halda slík samkvæmi. Í þessu tilviki var um að ræða 23 ára einstakling sem leigði salinn og taldi starfsfólki félagsins trú um að viðkomandi ætlaði að halda samkvæmi fyrir sig og sína vini sem væru öll eldri en 20 ára. Miðað við fréttir dagsins hefur það reynst rangt og hefur leigjandinn gerst sekur um að brjóta skilmála samningsins,“ segir í yfirlýsingu Gróttu.

Félagið áður lent í því að leigutaki veiti rangar upplýsingar og félagið hafi lagt sig fram við að fyrirbyggja atvik sem þetta með þvíað hækka aldur þeirra sem mega leigja út salinn.

„Nú leitast félagið við að styrkja og breyta verklagi til þess að fyrirbyggja að svona atvik komi upp. Nú þegar hefur verið ákveðið að starfsmaður félagsins gangi úr skugga um að ekki séu ungmenni að koma til samkvæmisins þegar það hefst og stöðva þá veisluna áður en hún fer af stað,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Íþróttafélagið segist upplifa að hafa brugðist trausti bæjarbúa með uppákomunni sem sé það síðasta sem félagið vilji. Félagið muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fyrirbyggja að atvik af þessu tagi endurtaki sig.

Lögreglan var með talsverðan viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur í gær eftir að skilaboð fóru á dreifingu manna á milli á samfélagsmiðlum í vikunni.

Í skilaboðunum var fólk meðal annars hvatt til að halda sig frá miðbænum um helgina vegna mögulegrar hefndarárás vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club síðustu helgi. Árásinni yrði mögulega beint að saklausum borgurum.