Leifar fellibylsins Dorian koma til Íslands á þriðjudag. Þegar fellibyljir úr Karíbahafi berast norður Atlantshafið dregur verulega úr styrk þeirra. Á þriðjudag verður úrkoma á nær öllu landinu en lægðarmiðjan sjálf fer rétt sunnan við landið.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir minni úrkomu í Dorian en í lægðinni sem gengur yfir um helgina en þegar er búið að gefa út gula viðvörun fyrir laugardag.

„Á þriðjudag verður ekki mikil úrkoma, þessar leifar eru eins og venjuleg lægð,“ segir Björn. „Fellibyljir þurfa að hitta á lægð í myndun ef þeir ætla að ganga í endurnýjun lífdaga og magnast upp með hlýju innskoti. Yfirleitt gera þeir það ekki og koðna smám saman niður.“

Dorian myndaðist þann 24 á miðju Atlantshafi og fór yfir Bahama eyjar í upphafi mánaðar. Gríðarleg eyðilegging hefur fylgt fellibylnum og er hann sá sterkasti á eyjunum frá upphafi mælinga. Hvað vindhraða varðar er hann sá sterkasti í sögu Atlantshafsbylja, ásamt „verkalýðsdags fellibylsins“ árið 1935. Að minnsta kosti 30 manns hafa farist af völdum Dorian.