Lee Man-hee, leið­togi sér­trúar­söfnuðarins Shincheonji Church of Jesus, hefur nú verið hand­tekinn af yfir­völdum í Suður-Kóreu eftir að fleiri en fimm þúsund manns innan söfnuðarins sýktust af CO­VID-19.

Hinn 88 ára gamli Lee er sakaður um að leyna upp­lýsingum um með­limi söfnuðarins frá smitrakningar­aðilum en hann var hand­tekinn snemma í dag í kjöl­far rann­sóknar á málinu.

Hann baðst af­sökunar síðast­liðinn mars eftir að talið var að með­limir söfnuðarins hafi sýkt hvorn annan í febrúar og ferðast í kjöl­farið um Suður-Kóreu. Þá sagði hann það ekki hafa verið markmið söfnuðarins en það hafi verið óhjákvæmilegt.

Einnig sakaður um milljóna króna fjárdrátt

Söfnuðurinn neitar því al­farið að Lee hafi leynt upp­lýsingum en að mati dómara eru vís­bendingar til staðar um að sönnunar­gögnum tengd málinu hafi verið eytt. Að því er kemur fram í frétt BBC um málið eru til­fellin tengd söfnuðinum um rúm­lega þriðjungur allra til­fella í Suður-Kóreu.

Þá er Lee einnig sakaður um fjár­drátt upp á 5,6 milljarða won, eða tæpar 640 milljón krónur, sem og að halda trúar­við­burði án leyfis. Með­limir söfnuðarins telja hátt í 230 þúsund og hefur Lee talið fylgj­endum sínum trú um að hann muni taka 144 þúsund manns með sér til himna­ríkis.