Lee Man-hee, leiðtogi sértrúarsöfnuðarins Shincheonji Church of Jesus, hefur nú verið handtekinn af yfirvöldum í Suður-Kóreu eftir að fleiri en fimm þúsund manns innan söfnuðarins sýktust af COVID-19.
Hinn 88 ára gamli Lee er sakaður um að leyna upplýsingum um meðlimi söfnuðarins frá smitrakningaraðilum en hann var handtekinn snemma í dag í kjölfar rannsóknar á málinu.
Hann baðst afsökunar síðastliðinn mars eftir að talið var að meðlimir söfnuðarins hafi sýkt hvorn annan í febrúar og ferðast í kjölfarið um Suður-Kóreu. Þá sagði hann það ekki hafa verið markmið söfnuðarins en það hafi verið óhjákvæmilegt.
Einnig sakaður um milljóna króna fjárdrátt
Söfnuðurinn neitar því alfarið að Lee hafi leynt upplýsingum en að mati dómara eru vísbendingar til staðar um að sönnunargögnum tengd málinu hafi verið eytt. Að því er kemur fram í frétt BBC um málið eru tilfellin tengd söfnuðinum um rúmlega þriðjungur allra tilfella í Suður-Kóreu.
Þá er Lee einnig sakaður um fjárdrátt upp á 5,6 milljarða won, eða tæpar 640 milljón krónur, sem og að halda trúarviðburði án leyfis. Meðlimir söfnuðarins telja hátt í 230 þúsund og hefur Lee talið fylgjendum sínum trú um að hann muni taka 144 þúsund manns með sér til himnaríkis.